Lífið

GLÆPURINN RITSKOÐAÐUR

Danmarks Radio, eða DR, ákvað að klippa burt blóðugustu atriðin í nýjustu þáttaröðinni af Forbrydelsen. Þættirnir verða sýndir ritskoðaðir á RÚV.
Danmarks Radio, eða DR, ákvað að klippa burt blóðugustu atriðin í nýjustu þáttaröðinni af Forbrydelsen. Þættirnir verða sýndir ritskoðaðir á RÚV.

Framhald af dönsku sakamálaþáttaröðinni Forbrydelsen byrjaði á DR í síðustu viku. Leikstjóri þáttanna er brjálaður út í forsvarsmenn danska ríkissjónvarpsins.

Stóra málið í dönskum fjölmiðlum um þessar mundir er „ritskoðun“ danska ríkissjónvarpsins, DR, á spennuþáttaröðinni Forbrydelsen eða Glæpnum. Fyrri þáttaröðin sló í gegn svo um munaði meðal Dana og Íslendinga og nú snýr Sarah Lund aftur og reynir að leysa flókið morðmál sem gæti teygt sig alla leið í æðstu stöður danska hersins.

Danska blaðið BT greinir frá því að blóðugustu og ofbeldisfyllstu atriðin í þáttunum hafi verið klippt út sökum þess að danska ríkissjónvarpið vildi ekki fá holskeflu af kvörtunum frá barnafólki og stjórnmálamönnum, svo vitnað sé beint í BT. Dagskrárstjóri danska ríkissjónvarpsins segir sjónvarpsstöðina einfaldlega vera að fylgja eftir reglum Evrópusambandsins um hvað megi sýna og hvað ekki fyrir klukkan átta á kvöldin. Leikstjóri þáttanna, Kristoffer Nyholm, er hins vegar algjörlega andvígur slíkri ritskoðun og gagnrýnir DR harðlega fyrir að hafa klippt umrædd atriði burt. „DR vildi fá alvöru trylli og verður þá að sýna hann á þeim tíma sem þykir tilhlýðilegur fyrir slíkt myndefni,“ segir Nyholm meðal annars í frétt BT.

RÚV mun sýna þáttaröðina strax eftir áramót. Þórhallur Gunnarsson, dagskrárstjóri RÚV, bjóst við því að sýna ritskoðuðu útgáfuna þar sem blóð og ofbeldi verður haldið í lágmarki. „Já, við sýnum þættina eins og DR sýnir þá.“ Aðdáendur Söruh Lund ættu að forðast danskar vefsíður því danskir fjölmiðlar sýna þáttunum mikinn áhuga. Þeir hafa fengið lofsamlega dóma og reikna má með að upplýst verði hver sé morðinginn um leið og síðasti þátturinn hefur verið sýndur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.