Innlent

Ríkisstjórnin fundar með aðilum vinnumarkaðarins í dag

Höskuldur Kári Schram skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Ríkisstjórnin fundar með aðilum vinnumarkaðarins í dag vegna stöðugleikasáttmálans og um væntanlegar niðurskurðaraðgerðir til að ná niður halla ríkissjóðs. Forsætisráðherra vonast eftir breiðri sátt um aðgerðir en segir að enginn verði þó ánægður.

Fundur ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins hefst í ráðherrabústaðnum klukkan eitt. Fyrir liggur að ríkisstjórnin þarf að skera niður um 20 til 25 milljarða króna á þessu ári og um 170 milljarða á næstu þremur árum.

Forystumenn ríkistsjórnarinnar hafa boðað blandaðar leiðir til að ná niður hallanum, skattahækkanir og niðurskurð.

Fjármálaráðherra kynnti í gær frumvarp um lækkun launa stjórnenda stofnana og félaga í eigu ríkisins og einnig tillögu um frestun kröfulýsinga ríkisins til þjóðlendna. Áætlað er að það muni spara ríkinu nokkur hundruð milljónir króna á ári.

„Það verður samdráttur í rekstri það verða breytingar á tilfærslum og það verða niðurskurður í framkvæmdum,"sagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra á blaðamannfundi ríkisstjórnarinnar í gær.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að enn væri beðið eftir heildar áformum ríkisstjórnarinna um niðurskurðaraðgerðir.

Forsætisráðherra vonast þó eftir breiðri sátt um þær leiðir sem verða farnar.

„Það er ástæða til þess að ætla að það geti orðið breið sátt um það að ná hér fram stöðugleikasáttmála sem að allir geta bærilega staðið að. Það verður enginn ánægður en með því að taka alla að borðinu eins og við gerum þá vonum við að við getum náð þessu saman í sæmilegri sátt," sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×