Lífið

Rúnar sá besti í áratug

Glimrandi umsögn Útskriftarmynd Rúnars Rúnarssonar fær góða dóma hjá ritstjóra danska kvikmyndatímaritsins Ekko.
Glimrandi umsögn Útskriftarmynd Rúnars Rúnarssonar fær góða dóma hjá ritstjóra danska kvikmyndatímaritsins Ekko.

„Enginn getur tekið það frá kvikmyndaskólanum að hann hefur nú brautskráð hæfileikaríkasta leikstjórann síðan Peter Schønau Fog útskrifaðist árið 1999,“ skrifar Claus Christensen, ritstjóri danska kvikmyndatímaritsins Ekko, í nýjasta tölublaði tímaritsins.

Christensen á þar við Rúnar Rúnarsson leikstjóra, sem útskrifaðist úr Danska kvikmyndaskólanum um þarsíðustu helgi. „Það er ófyrirgefanlegt ef danski kvikmyndabransinn þekkir ekki sinn vitjunartíma og fær þennan sérstaka náttúrutalent í sína þjónustu, áður en útlöndin ná að lokka hann í burtu,“ segir Christensen enn fremur í grein sinni.

„Kommbakk Kvikmyndaskólans“ er yfirskriftin á grein Christensens. Í henni fer ritstjórinn fögrum orðum um Önnu, útskriftarmynd Rúnars.

„Ég minnist þess ekki að hafa fyrr séð eins raunsæja og nístandi, en þó upplífgandi túlkun á óhamingjusömu skilnaðarbarni. Myndin er svo full af tilfinningum að maður tekur ekki eftir því að stór hluti sýningartímans, sem er 35 mínútur, er án samtala,“ segir Christensen og bætir við að nýútskrifaður árgangur Kvikmyndaskólans sé sá besti síðan 2001.

Anna var frumsýnd á Cannes-kvikmyndahátíðinni í vor.- kg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.