Innlent

Áform um loftrýmiseftirlit hugsanlega endurskoðuð

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.
Nýr utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, segir að áform um loftrýmiseftirlit NATO-ríkja yfir Íslandi á árinu kunni að verða endurskoðuð. Betra kunni að vera að verja peningunum frekar til velferðarmála og atvinnuuppbyggingar.

Á ráðstefnu NATO í Reykjavík fyrir helgi skýrði Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, frá því að áformað væri að Danir kæmu með herþotur til eftirlits í mars, Spánverjar í maí og Bandaríkjamenn í haust. Steingrímur J. Sigfússon vann sömu daga að stjórnarmyndun og sagði þá þessi áform drauga frá fyrri ríkisstjórn.

„Okkar áherslur eru alveg ljósar. Við viljum ekki sóa peningum í tilgangslaust bröl á þessu sviði. En það verður í höndum þess utanríkisráðherra sem fær þau mál að annast framkvæmd mála af því tagi," sagði Steingrímur.

Og nú er kominn nýr utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson. Hann segir að engar ákvarðanir hafi verið að teknar um framhald loftrýmiseftirlitsins á árinu.

„Ég geri ráð fyrir því að undirbúningur þeirra sem sendir verði hingað í mars sé á fullu," segir Össur og á allt eins von á því málið verði tekið upp á nýjan leik. „Ekki síst vegna stöðu efnahagsmála," segir Össur og bætir við að framkvæmdastjóri NATO hafi fullan skilning á því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×