Innlent

Eygló gefur kost á sér sem ritari

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins úr Suðurkjördæmi.
Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins úr Suðurkjördæmi.

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur ákveðið að gefa kost á sér sem ritari flokksins. Flokksþing Framsóknarflokksins verður haldið um miðjan janúar og þar verður ný forysta kjörin. Sæunn Stefánsdóttir, núverandi ritari flokksins og Gunnar Bragi Sveinsson, sveitarstjórnarmaður úr Skagafirði, hafa áður lýst yfir framboði í embættið.

Eygló segir að framsóknarstefnan og samvinnuhugsjónin hafa átt hug sinn og hjarta undanfarin ár. ,,Ég tel miklu skipta að Framsóknarflokkurinn komi út af flokksþingi með skýra stefnu og sterka forystu, sem byggi á samvinnu, samstöðu og valddreifingu í samfélaginu. Fyrir rúmum níutíu árum tóku menn höndum saman til að berjast gegn fákeppni, einokun og kúgun auðvaldsins. Það var hlutverk Framsóknarflokksins við stofnun og það þarf að verða hans megin hlutverk að nýju," segir Eygló.

Í þeirri stöðu sem nú er uppi í samfélaginu er ekki síður mikilvægt að standa vörð um hinar dreifðu byggðir landsins, segir Eygló. ,,Samþjöppun og fákeppni er ekki bara af hinu slæma í atvinnulífinu, heldur einnig í búsetu þjóðarinnar. Landsbyggðin sér nú fram á að verða á ný hjartað í íslensku atvinnulífi og tryggja þarf samkeppnisstöðu hennar á þeirri leið."

,,Ég hef haft mikla ánægju af flokksstarfinu og samstarfi við félagsmenn í gegnum starf mitt sem ritari Landssambands Framsóknarkvenna, ritari Kjördæmissambands Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi og gjaldkeri Framsóknarfélags Vestmannaeyja. Ég var í 4. sæti á lista Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi fyrir tvennar síðustu alþingiskosningar og sat um tíma á Alþingi sem varaþingmaður. Í nóvember tók ég sæti á Alþingi við afsögn Guðna Ágústssonar. Að auki hef ég gegnt fjölda trúnaðarstarfa á vegum Vestmannaeyjabæjar, m.a. setið í skólamálaráði, stjórn Nýsköpunarstofu Vestmannaeyja, Visku,-fræðslu- og símenntunarmiðstöðvar og sem stjórnarformaður Náttúrustofu Suðurlands. Í atvinnulífinu hef ég sinnt margvíslegum störfum í landbúnaði, sjávarútvegi, verslun og ferðaþjónustu, með sérstaka áherslu á kynningar- og markaðsmál," segir Eygló.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×