Erlent

Sarah Palin sár og reið

Sarah Palin, fyrrverandi varaforsetaframbjóðandi.
Sarah Palin, fyrrverandi varaforsetaframbjóðandi.

Sarah Palin er ekki búin að jafna sig eftir ósigurinn í bandarísku forsetakosningunum. Hún er bitur út í fjölmiðla sem hún segir hafa gert grín að sér.

Sarah Palin segir að fjölmiðlar hafi hatað sig og komið fram við sig eins og hún væri einhver ómenntuð undirmálskerling ofan úr fjöllum. Palin lætur þessi orð falla í nýrri heimildarmynd eftir íhaldsmanninn John Ziegler. Myndin er ekki fullgerð en Ziegler hefur sett hluta hennar á netið. Myndin hefur fengið nafnið Misnotkun fjölmiðla, hvernig Obama var kosinn.

Nafnið gefur kannski nokkta hugmynd um útgangspunkt kvikmyndagerðarmannsins sem segir í bloggfærslu með myndinni á netinu að það sé þjóðarharmleikur hvernig fjölmiðlar hafi hæðst að Palin. Þeir myrtu hana, segir hann.

Palin kvartar einnig undan meðferðinni á fjölskyldu sinni. Sérstaklega að efast hafi verið um að hún væri móður yngsta barns síns, sem er með Downs heilkenni. Einnig hvernig fjallað var um að dóttir hennar var ófrísk utan hjónabands. Í því efni fékk hún raunar stuðning frá Barack Obama sem fordæmdi allar árásir á fjölskyldu hennar.

Palin segir að stéttaskipting hafi verið augljós í umfjöllun um framboð hennar til embættis varaforseta. Hún bendir á að Caroline Kennedy dóttir Johns Kennedys fyrrverandi forseta, sækist nú eftir að verða öldungadeildarþingmaður. Umfjöllun fjölmiðla um það hafi verið afskaplega mjúk, sem sýni að stéttaskipting ráði einnig ferðinni í fjölmiðlum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×