Lífið

Drottningin stendur undir nafni

Þriðja táknið er nú „val mánaðarins“ í Waterstone´s sem er stærsta bókakeðja Englands.
Þriðja táknið er nú „val mánaðarins“ í Waterstone´s sem er stærsta bókakeðja Englands.

„Þriðja táknið eftir Yrsu Sigurðardóttur kom út í gær í kilju í Bretlandi. Stærsta bókabúðakeðjan þar í landi, Waterstone’s, gerir henni sérstaklega hátt undir höfði; hún er sumsé Waterstone’s Crime Booksellers’ Choice í janúar,“ segir útgefandinn Pétur Már Ólafsson.

Þó jólabókavertíðin sé að baki hefur Pétur í nægu að snúast, einkum í kringum drottningu íslensku glæpasögunnar, Yrsu, sem er að gera góða hluti í Bretlandi. Auk þess sem Waterstone"s hampar Yrsu teflir bókabúðakeðjan WH Smiths Travel henni fram. „Ég er ekki viss um að bók eftir íslenskan höfund hafi fengið viðlíka start á breskum bókamarkaði fyrir utan verk Arnaldar Indriðasonar en menn hafa einmitt mjög fjallað um það í dómum að nú eigi Ísland tvo framúrskarandi glæpasagnahöfunda, Yrsu og Arnald. Önnur glæpasaga Yrsu, Sér grefur gröf, kemur síðan út innbundin í Bretlandi og Bandaríkjunum á útmánuðum,“ segir Pétur og er með á hraðbergi góða dóma sem Yrsu hafa fallið í skaut: News of the World birti á dögunum stutta umsögn um bókina og gefur fjórar stjörnur.

Að sönnu ekki virtasta blað Bretlandseyja – en það útbreiddasta, svo ekki spillir það fyrir. Áður, þegar Þriðja táknið kom út innbundin í fyrra í Englandi, ritaði gagnrýnandi The Times að breskir lesendur yrðu nú að gefa tveimur góðum íslenskum glæpasagnahöfundum gaum. „Daily Telegraph sagði að Þriðja táknið væri létt og leikandi, bókin fékk fjórar stjörnur bæði í Sunday Express og í tímaritinu SHE, fimm stækkunargler af fimm mögulegum í vefmiðlinum Crime Squad, Sunday Telgraph sagði að bókin væri „fullkomin frumraun“, gagnrýnandi Guardian skrifaði að bókin væri „fyndin og áhugaverð“ og að mati tímaritsins Woman and Home er Þriðja táknið „æsispennandi frumraun“, segir Pétur og fer ekki í grafgötur með að Yrsa standi undir nafni sem glæpasagnadrottning Íslands.- jbg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.