Erlent

Albertina-safnið rýmt vegna flóða

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Aðalinngangur safnsins.
Aðalinngangur safnsins.

Unnið er að því að rýma Albertina-safnið í Vín með hraði vegna flóða sem stafa af úrhellisrigningu í borginni.

Á Albertina-safninu er að finna um 950.000 listmuni, þar á meðal ein þekktustu málverk meistaranna Monet og Renoir að ógleymdum sjálfum Michelangelo. Húsið sjálft var endurbyggt eftir síðari heimsstyrjöldina og má muna sinn fífil fegurri. Það hriplekur en auk þess þarf ekki mikið til að vatn flæði inn í húsið ef svo mikið rignir að holræsakerfi Vínar hefur ekki undan.

Þannig er staðan einmitt núna og starfsfólk safnsins hamast við að bera ómetanlega listmuni út í vöruflutningabíla sem flytja þá á öruggari stað þar til rigningatíðin er yfirstaðin. Tíu þúsund austurrískir hermenn eru í viðbragðsstöðu í borgum og bæjum meðfram Dóná sem nánast flæðir yfir bakka sína og búist er við að til neyðarástands geti komið fyrr en síðar.

Það eru ekki eingöngu flóð sem ógna Albertina-safninu, styrktaraðilar þess hafa kippt að sér höndum og skorið styrki til safnsins niður um tvær milljónir evra í kreppunni, einmitt þegar virkilega þarf á vænni summu að halda til að dytta að byggingunni svo hún hripleki ekki í rigningatíð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×