Innlent

Ekkert greitt fyrir menntun Íslendinga á Norðurlöndunum

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra. Mynd/ Valgarður Gíslason
Norrænu menntamálaráðherrarnir undirrituðu samkomulag í dag sem tryggir námsmönnum á Norðurlöndunum aðgang að æðri menntun í öllum aðildarríkjum Norrænu ráðherranefndarinnar. Ísland fær undanþágu frá samkomulagi sem gert er um greiðslur milli landa og greiðr ekki neitt, en tekur þátt í samstarfinu á jafnræðisgrundvelli.

„Frjáls för námsmanna milli Norðurlandanna er mikilvægur þáttur í norrænu samstarfi og því mikilvægur þáttur í viðleitni okkar til að styrkja Norðurlöndin bæði innbyrðis og út á við", segir Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, í tilkynningu.

Haft er eftir Katrínu að samstarf og miðlun þvert á landamæri séu ekki síst mikilvæg núna í ljósi þeirrar heimskreppu sem ríkir. „Með samkomulaginu, sem við undirrituðum í dag, erum við að styrkja samkeppnishæfni Norðurlandanna í alþjóðasamfélaginu", segir ráðherrann.

Danmörk vinsælasta landið

Samkomulagið um aðgang að æðri menntun á Norðurlöndunum var fyrst gert árið 1996. Það tryggir umsækjendum rétt til að sækja sér menntun í öðru norrænu ríki til jafns við íbúa þess. Á skólaárinu 2007 til 2008 nýttu rúmlega 8.000 námsmenn sér samkomulagið og stunduðu nám í öðru norrænu ríki en heimalandinu.

Danmörk var vinsælasta landið, en þar voru tæplega 5.000 námsmenn, en flestir þeir sem stunduðu nám í öðru ríki en heimalandinu voru frá Noregi og Svíþjóð. Þegar miðað er við höfðatölu fóru flestir námsmenn frá Íslandi eða 1.400, en fáir Finnar fara erlendis til náms og fáir erlendir námsmenn stunda nám í Finnlandi, námsmenn sem fara þaðan eru 1.000 og þeir sem koma eru 200.

Ísland gerðir ekki neitt

Kostnaður við samkomulagið er gerður upp milli landanna en hann er 22.000 danskar krónur á námsmann eða hálf milljón íslenskra króna, en Ísland greiðir ekkert.

Samkomulagið gildir á tímabilinu 2010 til 2012 og nær til allra Norðurlandanna og sjálfstjórnarsvæðanna Grænlands, Færeyja og Álandseyja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×