Lífið

Útvarpskona hló alla leiðina á spítalann

Héldu hana hafa vankast Margrét Erla Maack mætt í vinnuna eftir vespuslysið í Kópavogi. Fréttablaðið/Valli
Héldu hana hafa vankast Margrét Erla Maack mætt í vinnuna eftir vespuslysið í Kópavogi. Fréttablaðið/Valli

„Það er mesta mildi að það var ekki bíll á eftir mér. Þá hefði getað farið miklu verr,“ segir Margrét Erla Maack, plötusnúður í Popplandi Rásar 2. Hún lenti í vespuslysi á miðvikudagskvöldið.

„Ég var á leið til kærastans míns í Kópavogi – það er náttúrulega algjört bull að eiga kærasta í Kópavogi – og rann í bleytunni þegar ég var að fara niður af Hamraborgarbrúnni. Mér tókst að rétta mig af en lenti þá í öðrum polli og missti hjólið undan mér. Gott fólk kom og hjálpaði mér og svo kom löggan og sjúkrabíll. Sjúkraflutningamennirnir héldu að ég hefði vankast af því að ég hló svo mikið á leiðinni á spítalann. En ég var nú bara að hlæja af því það minnti mig svo mikið á Playmo-karla þegar þeir voru að bera mig inn í bílinn á sjúkrabörunum.“

Margrét brákaðist á ökkla og þarf að styðja sig við hækju og hún er skrámuð á hökunni. „Ég gæfi ekki mikið fyrir hausinn á mér ef ég hefði ekki verið með hjálm. Svo var ég líka í leðurbangsajakka með silíkon-hlífum úti um allt. Spegill brotnaði á vespunni og önnur hliðin á henni er hrufluð. Konurnar á bráðamóttökunni sögðu mér að þetta hefði verið annað vespuslysið á miðvikudaginn.“

Margréti finnst hún berskjölduð í umferðinni á vespunni sinni. „Ég er á fermingarhjóli sem kemst ekki nema upp í 45 km hraða. Aðrir ökumenn eru oft mjög óþolinmóðir á eftir mér og margir taka lítið tillit til manns. Þetta getur verið hættuspil. Fólk sem vinnur við að aka – leigubílar og fólk á merktum bílum – er oft lítið með hugann við aksturinn og eru þeir ökumenn sem svína mest fyrir mann. Ef það er svínað fyrir mig hringi ég oft í fyrirtækin og er ógeðslega leiðinleg í símanum.“

Margrét fékk frí í gær en er mætt í Popplandið í dag eins og ekkert hafi í skorist. „Mér er samt dálítið brugðið. Ég held það þurfi smá átak að setjast aftur upp á vespuna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.