Lífið

Spilar í sjö Evrópulöndum

Síðrokkararnir efnilegu eru á leiðinni í sína lengstu tónleikaferð til þessa.
Síðrokkararnir efnilegu eru á leiðinni í sína lengstu tónleikaferð til þessa.

Hljómsveitin For a Minor Reflection er á leiðinni í sína stærstu tónleikaferð til þessa. Spilað verður á tuttugu tónleikum í sjö Evrópulöndum á tæpum mánuði.

„Þetta er lengsti túrinn okkar hingað til. Þetta verður alveg mánuður úti og við erum mjög spenntir," segir Guðfinnur Sveinsson.

Fyrstu tónleikarnir verða á Spot-hátíðinni í Danmörku 23. maí en þeir síðustu verða í Glasgow í Skotlandi 20. júní. Einnig spilar sveitin á fimm tónleikum í Þýskalandi sem tengjast íslenska tónlistarklúbbnum Norðrinu sem var stofnaður fyrr á árinu.

Síðasta tónleikaferð hinnar samningslausu For a Minor Reflection var farin í nóvember þegar hún hitaði upp fyrir Sigur Rós víðs vegar um Evrópu. Sá túr stóð yfir í þrjár vikur og spiluðu þeir félagar á fimmtán tónleikum, mest fyrir framan 8.500 manns á tvennum tónleikum í London. Um páskana í fyrra fór sveitin líka á stuttan túr um Bandaríkin og Kanada til að fylgja sinni fyrstu plötu eftir sem kom út skömmu fyrir Iceland Airwaves 2007. „Það var góð reynsla og við vöndumst því að keyra langar vegalengdir," segir Guðfinnur. Bætir hann við að platan, sem nefnist „Reistu þig við sólin, er komin á loft", hafi fengið mun betri viðtökur en þeir bjuggust við, enda var hún gerð á aðeins sex klukkustundum. Hefur hún selst í tæpum fjögur þúsund eintökum, sem er ekki slæmt miðað við fyrstu plötu hljómsveitar. „Hún var tekin upp „live" í litlum bílskúr í Kópavogi og mixuð og masteruð af bróður bassaleikarans [Elvars Þórs Guðmundssonar] á tveimur tímum yfir nótt," segir Guðfinnur. Býst hann við því að meira verði lagt í næstu plötu, sem verður líklega tekin upp á þessu ári.

Eftir að For a Minor Reflection kemur heim frá Evrópu verður ekkert slakað á því þá tekur við tónleikaferð um Ísland sem stendur yfir í viku. Þar verður tónlistar­maðurinn Ólafur Arnalds með í för og verða fyrstu tónleikarnir í Reykjavík 23. júní. „Það lengsta sem við höfum spilað í burtu frá Reykjavík er í Hafnarfirði. Þetta er nýtt fyrir okkur en við erum mjög spenntir," segir Guðfinnur.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.