Erlent

Obama fær 30 líflátshótanir á dag

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Obama fær miklu fleiri líflátshótanir en Bush. Mynd/ AFP.
Obama fær miklu fleiri líflátshótanir en Bush. Mynd/ AFP.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, fær 30 líflátshótanir á dag og sífellt fleiri leyniþjónustumenn gæta hans, eftir því sem fram kemur í nýrri bók um forsetann.

Í umfjöllun Telegraph um bókina kemur fram að frá því að Obama tók embætti hefur líflátshótunum forsetans fjölgað um 400%, en þær voru um 3000 á ári þegar George Bush yngri gegndi forsetaembættinu.

Obama gengur undir dulnefninu Renegade þegar leyniþjónustan gætir hans. Sumar hótanirnar sem honum berast hafa verið gerðar opinberar. Þar á meðal eru hótanir frá rasistum í Tennesse sem sögðust í fyrra ætla að ræna skotvöruverslun, skjóta 88 svertingja, afhausa aðra 14 og myrða svo fyrsta þeldökka forsetann í sögu Bandaríkjanna.

Flestum hótunum er hins vegar haldið leyndum því leyniþjónustan telur að með því að uppljóstra um þær geti menn farið að herma eftir slíkum hótunum. Þótt flestar hótanirnar séu ótrúverðugar þarf að skoða hverja fyrir sig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×