Innlent

Íslensk stúdína á Nýja Sjálandi með svínaflensuna

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Freyja ásamt vinum sínum í Nýja Sjálandi, en hún er önnur frá vinstri á myndinni.
Freyja ásamt vinum sínum í Nýja Sjálandi, en hún er önnur frá vinstri á myndinni.
„Ég er ekkert hræddari núna en þegar maður fær venjulega flensu," segir Freyja Oddsdóttir, 25 ára stúdína á Nýja Sjálandi. Hún liggur rúmföst um þessar mundir með hausverk, hita, beinverki og ljótan hósta - líklegast smituð af svínaflensu.

Freyja er í Nýja Sjálandi á vegum stúdentasamtaka sem hún vinnur fyrir. Hún telur sig hafa smitast af svínaflensunni á ráðstefnu sem hún tók þátt í að skipuleggja fyrr í mánuðinum.

Að hennar sögn tók fólk að veikjast á ráðstefnunni, fyrst fáir en síðan sífellt fleiri. Skipuleggjendurnir hafi þá haft samband við heilbrigðisráðuneyti landsins, en var sagt að hafa ekki áhyggjur. Það var síðan að ráðstefnunni lokinni sem sumir hinna veiku leituðu sér aðstoðar og voru allir greindir með flensuna ógnvænlegu.

Alls hafa um fimmtánhundruð tilfelli verið staðfest í landinu og viðbragðsstig stjórnvalda hefur verið hækkað úr „containment" í „management".

„Þeir eru hættir að gera prufur á fólki, nú spyrja þeir bara um einkennin og greina sjúklinga þannig," segir Freyja, sem er talsvert slöpp.

„Þetta er svipað og venjuleg flensa, en frekar óskemmtilegt auðvitað."

Um sex manns hafa látist af svínaflensunni í Nýja Sjálandi svo vitað sé. Freyja segist þó ekki hafa miklar áhyggjur.

„Ég held að þetta verði allt í lagi, þetta er ekki svo mikið mál hér," segir Freyja, og bendir á að dánartíðni vegna svínaflensunnar sé ekkert endilega hærri en af hverri annarri flensu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×