Innlent

Grýtti vískípela í tjaldvörð

Þrastaskógur. Myndin tengist ekki fréttinni beint.
Þrastaskógur. Myndin tengist ekki fréttinni beint. Mynd/ Vilhelm
21 árs karlmaður var í dag dæmdur í skilorðsbundið fangelsi í 60 daga fyrir að kasta viskípela í síðu á tjaldverði þann 18. júlí 2008. Atvikið átti sér stað á tjaldstæðinu í Þrastaskógi og hafði þær afleiðingar að tjaldvörðurinn hlaut ílangan marblett vinstra megin á brjóstkassa aftanverðum, rétt neðan herðablaðs, bólgu þar undir og þreifieymsli.

Tjaldvörðurinn hafði afskipti af manninum og vinum hans. Hann hringdi á lögreglu og bað um að nokkur ungmenni yrðu fjarlægð af tjaldsvæðinu vegna ölvunar. Þar sem hann stóð og talaði við lögregluna í símann fann hann fyrir þungu höggi í síðuna. Fljótlega áttaði hann sig á því að hann hafði fengið viskípela, sem hann taldi vera úr gleri, í síðuna frá manninum.

Í yfirheyrslum lögreglu viðurkenndi maðurinn að hafa kastað pelanum í tjaldvörðinn. Hann taldi að pelinn hefði ekki brotnað í kastinu þar sem hann hefði samkvæmt minni ákærða verið úr plasti. Er honum var kynnt fyrirliggjandi læknisvottorð vegna áverkanna á kæranda sagði hann: „Ég er ekki skotfastur og trúi þessu ekki. Ég segi að það er ekki séns að hafa veitt honum þessa áverka. Hann hefur slasað sig einhvern veginn öðruvísi þessi."

Samkvæmt sakaskrá mannsins hafði hann verið sviptur ökuréttindum í einn mánuð árið 2007 fyrir hraðakstur. Með dómi í nóvember 2008 var manninum gert að greiða 120.000 króna sekt og sæta sviptingu ökuréttar í 5 mánuði fyrir að aka bifreið óhæfur til að stjórna henni „örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna. Brot þau sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir voru framin fyrir uppkvaðningu þess dóms. Refsing hans var því ákvörðuð sem hegningarauki við þann dóm með vísan til 78. gr. almennra hegningarlaga.

Maðurinn var dæmdur í 60 daga fangelsi, en fresta skal fullnustu refsingar og hún niður falla að 2 árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð.

Þá var honum einnig gert að greiða fórnarlambinu 220.000 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×