Erlent

Kröfu móður Jacksons hafnað

Dómari í Los Angeles hafnaði í gær kröfu Katherine Jackson, móður poppsöngvarans, um að hún yrði gerð að fjárhaldsmanni í dánarbúi Jackson. Þess í stað skipaði dómarinn lögfræðinginn John Branca og tónlistarútgefandann John McClain fjárhaldsmenn dánarbúsins. Í erfðaskrá söngvarans frá árinu 2002 kemur fram sú ósk hans að Branca og McCain meðhöndli eignir hans falli hann frá. Við dómsúrskurðinn í gær kom fram að eignir dánarbúsins væru metnar á 500 milljón dollara. Það eru um 64 milljarðar króna.

Enn er mörgum spurningum ósvarað varðandi dauða Jackson. Einkaþjálfari hans segir að áhyggjur og streita vegna mörg hundruð milljóna dollara skuldabagga hafi dregið hann til dauða. Hann vísar því á bug að söngvarinn hafi verið illa á sig kominn vegna lyfjaneyslu. Þvert á móti hafi Jackson verið í toppformi fyrir væntanlegt tónleikaferðalag.

Útför Jackson fer fram í kyrrþey snemma í dag að bandarískum tíma.

Þá verður opinber minningarathöfn um Michael Jackson haldin í Los Angeles í dag. Meðal þeirra söngvara sem munu heiðra minningu poppgoðsins eru Stevie Wonder, Lionel Richie og Mariah Carey.

Minningarathöfnin verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Extra klukkan fimm í dag. Búist er við að yfir þrír milljarðar áhorfenda um allan heim muni sameinast fyrir framan sjónvarpið.




Tengdar fréttir

Jackson lagður til hinstu hvílu

Stevie Wonder, Lionel Richie og Mariah Carey verða meðal þeirra söngvara sem heiðra minningu poppgoðsins Michaels Jackson við minningarathöfn sem haldin verður um hann í dag í Staples Center í Los Angeles.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×