Lífið

Bubbi bakkar út úr auglýsingu Símans

Auglýsing Símans og Tónlistar.is með lagi Bubba, Rómeó og Júlía, hefur verið tekin úr umferð.
Auglýsing Símans og Tónlistar.is með lagi Bubba, Rómeó og Júlía, hefur verið tekin úr umferð.

Lag Bubba Morthens, Rómeó og Júlía, hefur verið tekið út úr nýrri auglýsingaherferð Símans og Tónlistar.is að beiðni Bubba.

Í auglýsingunum syngja íslensk ungmenni hin ýmsu lög, þar á meðal Rómeó og Júlía. Engilbert Hafsteinsson, framkvæmdastjóri D3 sem rekur Tónlist.is, segist hafa fengið skriflegt leyfi frá öllum lagahöfundunum um að fá að nota lögin án endurgjalds og allir hafi gefið samþykki sitt, þar á meðal Bubbi. Honum hafi síðan snúist hugur og gefið upp þá ástæðu að lagabúturinn hafi verið tveimur sekúndum of langur í auglýsingunni, eða sjö sekúndur í stað fimm.

Páll Eyjólfsson, umboðsmaður Bubba, segir að málið snúist um það hvort það sé Tónlist.is eða Síminn sem sé að auglýsa íslenska tónlist í þessari nýju herferð. „Það er allur munur á því hvort plötuverslun er að auglýsa vöruna í búðinni sinni eða hvort fyrirtæki er að nýta sér íslenska tónlist í ímyndarherferð,“ segir hann. „Bubbi hefur alla tíð passað upp á réttinn sinn og við viljum kanna hvort þetta er ekki allt samkvæmt bókinni.“

Engilbert segir að fyrst og fremst sé verið að auglýsa vörur Tónlistar.is í auglýsingunum. „Eins og við lýstum fyrir útgefendum er þetta eins og Síminn hafi keypt gjafabréf af okkur og fari út í búð og gefi þau. Gjafabréfin eru auðvitað frá okkur og það er verið að auglýsa okkar vöru. Ég veit ekki hvernig tónlistarveita á að auglýsa þjónustuna sína ef hún má ekki auglýsa lögin.“ Hann segir að Bubba-auglýsingin verði ekki sett aftur í umferð. Úr nægum efniviði sé að moða enda hafi nýjar auglýsingar með fjölda laga verið teknar upp um síðustu helgi.

Samkvæmt samningi Símans og Tónlistar.is fá lagahöfundarnir ekkert borgað aukalega fyrir notkun laganna. Í staðinn var ákveðið að hafa samband við hvern og einn þeirra og biðja um leyfi. „Við fórum fram á að haft yrði samband við alla höfundana því við erum að gæta hagsmuna laga- og textahöfunda,“ segir Jenný Davíðsdóttir, skrifstofustjóri Stefs, og segir ekkert óeðlilegt við vinnubrögð Símans og Tónlistar.is. „Þetta er ekki eins og hvert annað fyrirtæki því þetta er fyrirtæki sem er að selja tónlist, sem er höfundunum í hag,“ segir hún um Tónlist.is. „Ef höfundurinn vill ekki að lagið sé notað í þessum tilgangi er honum heimilt að stöðva það.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.