Innlent

Segir ESB tillöguna vera sprengju í þinginu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hart var deilt á þingi við upphaf fundar í dag. Mynd/ Vilhelm.
Hart var deilt á þingi við upphaf fundar í dag. Mynd/ Vilhelm.
Stjórnarandstaðan deildi hart á fundarstjórn forseta Alþingis við upphaf þingfundar í dag. Ráðgert hafði verið að þingfundur hæfist klukkan hálfellefu í morgun en fundinum var frestað fram á hádegi.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins virtust þeirrar skoðunar að frestur á þinginu væri vegna óeiningar í stjórnarmeirihlutanum um þingsályktunartillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Bjarni Benediktsson sagði að þingsályktunartillagan og Icesave málið hefðu bæði truflað dagskrá þingsins. „ESB málið er auðvitað ekkert annað en djúp sprengja inn í þingið," sagði Bjarni og hélt því fram að með málinu væri verið að sprengja allt í tætlur.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að eðlilegar skýringar væru á frestun þingfunda. „Þingmenn verða auðvitað bara að búa við það að það gæti þurft að fresta þingi í einn og hálfan tíma þegar verið er að afgreiða eitt stærsta máli í sögu þings og þjóðar," sagði Helgi Hjörvar og vísaði í ESB þingsályktunartillöguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×