Erlent

Eldsprengjur í sænskum kartöfluflögupokum

MYND/Expressen

Tímastilltar eldsprengjur sprungu í tveimur sænskum stórmörkuðum í nótt. Sprengjunum var komið fyrir í kartöfluflögupokum. Sænska lögreglan grunar Global Intifada, sem er hreyfing öfgafullra vinstrimanna, um verknaðinn.

Fjórir brunar urðu í sænska bænum Södertalje í nótt, í tveimur stórmörkuðum og tveimur minni verslunum. Báðir stórmarkaðirnir og önnur verslunin eru nánast brunnin til grunna. Tímastilltar eldsprengjur ollu öllum eldsvoðunum. Sprengjunum var komið fyrir í kartöfluflögupokum. Sú aðferð hefur verið notuð áður, fyrir mánuði síðan og rétt fyrir jól.

Samkvæmt sænska Aftonbladet sendu samtökin hótunarbréf í síðustu viku þar sem hótað var að bera eld að verslunum sem selja bandarískar vörur. Samtökin eru fyrst og fremst þekkt fyrir að kasta eldsprengjum að bifreiðum diplómata í Stokkhólmi fyrir þremur árum síðan.

Þetta er í annað skipti í þessari viku sem stórbrunar hafa orðið í Svíþjóð. Aðfaranótt þriðjudags fengu þrír reykeitrun í hótelbruna í Eskiltuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×