Innlent

Nær 300 prósenta verðmunur á rauðum eplum

Mestur munur er á verði á ávöxtum og grænmeti í nýrri verðkönnun ASÍ. Í þeim vöruflokki er verðmunur að meðaltali um eða yfir 100 prósent. Mestur var hann á rauðum eplum sem reyndust ódýrust í Nettó á 129 krónur kílóið en dýrust í 10-11 á 499 krónur kílóið, munurinn eru 287 prósent.

Verðmunur á drykkjarvörum er oftast á bilinu 90-110 prósent, mestur verðmunur er á ódýrasta fáanlegu 500 ml léttölinu sem kostar 79 kr. í Bónus en 179 kr. í 10-11, mismunurinn er 127 prósent.

Ef skoðaðar eru kjötvörur kemur í ljós að verðmunurinn er oftast á bilinu 60-70 prósent. Mestur verðmunur er á ferskum kjúklingabringum, þær eru ódýrastar í Nettó á kr. 1.399 en dýrastar í 10-11 á 3.199 kr./kg. sem er 129 prósenta verðmunur.

Könnunin var gerð hinn 27. október síðastliðinn af verðlagseftirliti ASÍ. Oftast er ódýrasta vöruverðið hjá Bónus, eða í 49 skipti af 70 vörutegundum sem kannaðar voru. 10-11 var oftast með hæsta vöruverðið, eða í 35 skipti. Bent er á að ekki reyndist unnt að mæla verð á 21 vörutegund í 10-11 þar sem þær voru ekki fáanlegar í versluninni.

Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru, en þegar afsláttur var gefinn skýrt til kynna var skráð afsláttarverð. Skráð var kílóverð á vöru til þess að auðvelda verðsamanburð. - sbt




Fleiri fréttir

Sjá meira


×