„Ég er svekktur. Þetta voru gríðarleg vonbrigði," sagði Gunnleifur Gunnleifsson markvörður eftir leik Skotlands og Íslands í kvöld. Skotland vann leikinn, 2-1.
„Við vorum búnir að undirbúa okkur vel og lengi fyrir þennan leik. Við ætluðum að vinna þennan leik. Ég veit ekki hvort ég hefði getað gert betur í þessum mörkum en ég er alltaf gagnrýninn á sjálfan mig og reiðubúinn að skoða hvað mætti betur fara."
Hann segir að Ólafur Jóhannesson hafi sagt þeim að búast við að Skotar yrðu ágengir fyrstu mínúturnar í leiknum.
„Þeir voru ekki eins grimmir og við héldum sem hentaði okkur ágætlega. Við náðum þá að koma okkur inn í leikinn en þá kom markið. Það var gríðarlega svekkjandi."
Það var nokkur umræða um hvort hann eða Árni Gautur hefði átt að standa vaktina í þessum leik.
„Við erum góðir félagar og vinnum vel saman. Auðvitað vill maður alltaf spila og við ætluðum okkur báðir sæti í byrjunarliðinu. En hann tók fréttunum eins og sannur atvinnumaður og vil ég halda að ég hefði gert slíkt hið sama."
Gunnleifur: Gríðarleg vonbrigði
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
