Erlent

Fimmtungur Bandaríkjamanna seinn vikulega

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Einn af hverjum fimm Bandaríkjamönnum mætir of seint til vinnu að minnsta kosti einu sinni í viku.

Umferðin er algengasta afsökun þeirra sem mæta of seint til vinnu en annars er að finna alla flóruna í þeim ástæðum sem fólk gaf þegar atvinnumiðlunin Career Builder ræddi við tæplega 3.300 vinnandi menn og konur og spurði hreinlega hvernig þeim gengi að koma sér í vinnuna.

Umferðin er eitt en í kjölfarið fylgdi svefnleysi og almenn þreyta, tafir við að koma börnum í skóla eða pössun, tafir eða seinkun í almenningssamgöngukerfum, stórkostleg vandræði við að velja föt fyrir daginn eða stirð samskipti við gæludýr í morgunsárið. Það virðist eiginlega mesta furða að nokkur maður mæti yfir höfuð til vinnu þegar listinn er skoðaður.

Auk þess fimmtungs sem kemur seint einu sinni í viku játaði einn af hverjum tíu að koma of seint tvisvar í viku. Niðurstöðurnar gefa til kynna fjölgun tilfella frá því fyrir einu ári og telur Career Builder það ekki góðs viti. Að sjálfsögðu var haldið sérstaklega utan um öfgafyllstu seinkunarástæður en þar var efst á blaði bilað vinstra stefnuljós sem olli því að viðkomandi tók eintómar hægri beygjur og varð því allt of seinn í vinnuna, ef hann komst þá einhvern tímann þangað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×