Lífið

Aldrei verið í betra formi

Eiríkur Hauksson fagnar fimmtugsafmæli sínu í dag og blæs af því tilefni til mikillar rokkveislu í Austurbæ. Hann segist aldrei hafa verið í betra formi og aldrei hafa haft jafn mikið að gera.fréttablaðið/Arnþór
Eiríkur Hauksson fagnar fimmtugsafmæli sínu í dag og blæs af því tilefni til mikillar rokkveislu í Austurbæ. Hann segist aldrei hafa verið í betra formi og aldrei hafa haft jafn mikið að gera.fréttablaðið/Arnþór

Einhver ástsælasti rokksöngvari þjóðarinnar fyrr og síðar, Eiríkur Hauksson, fagnar fimmtugsafmæli sínu í dag. Hann blæs af því tilefni til mikillar afmælisveislu í Austurbæ.

„Takmörk, nei, þetta er samt fín hugmynd. Takk fyrir hana, ég kannski geri það bara, set mér einhver takmörk í tilefni dagsins," segir Eiríkur Hauksson, rokksöngvari Íslands númer eitt. Í dag eru fimmtíu ár liðin síðan Eiríkur leit dagsins ljós í fyrsta skipti og óhætt er að segja að hann hafi sett mark sitt á íslenskt tónlistarlíf á þeim fimmtíu árum sem hann hefur gengið um á meðal manna. „Ég er bara fyrst og fremst ánægður að verða þetta gamall, ég meina, hver hefði búist við því?" segir Eiríkur og hlær. „Svona miðað við aldur og fyrri störf. Ég lít því á þetta sem glæsileg tímamót."

En þrátt fyrir að Eiríkur sé að verða fimmtugur er hvergi neinn bilbug á honum að finna. Hann segist reyndar aldrei hafa haft meira að gera. „Ég er að taka upp plötu með hljómsveit sem heitir Magic Pie, við erum búnir að taka upp nokkra grunna og klárum plötuna seinna á þessu ári. Og svo mun ég syngja eitthvað fyrir vin minn, Ken Hensley, í júlí og ágúst," segir Eiríkur, sem hefur að mestu haldið sig utan landsteinanna undanfarin ár ef undan­skilið er Eurovisionlagið Ég les í lófa þínum. „Jú, auðvitað kemur til greina að gefa eitthvað út á móðurmálinu, það yrði þá að vera verkefni fyrir 2010 því ég er alveg fullbókaður fyrir þetta ár."

Eiríkur segist aldrei hafa verið í betra formi, bæði líkamlega og andlega. „Auðvitað mættu fjúka tvö eða þrjú kíló svo að maður fengi þvottabretti á magann en annars er ég bara mjög góður, verð aldrei veikur eða neitt þannig. Nema bara af stóru sjúkdómunum eins og krabbameini," segir Eiríkur og bætir því við að kannski séu þessi tímamót einmitt svolítið sérstök í því ljósi, að hafa unnið bug á þeim mikla vágesti. „Já, það er kannski alveg rétt, maður lítur þennan áfanga kannski öðrum augum í ljósi þessa."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.