Lífið

Lautarferðir á Lækjartorgi í sumar

Ívar Örn verður duglegur við að grilla á Lækjartorgi í sumar með hjálp krakkanna úr Vinnuskólanum.fréttablaðið/pjetur
Ívar Örn verður duglegur við að grilla á Lækjartorgi í sumar með hjálp krakkanna úr Vinnuskólanum.fréttablaðið/pjetur

Landnemahópur Vinnuskólans ætlar að grilla á Lækjartorgi í hádeginu á virkum dögum í sumar undir leiðsögn leikarans Ívars Arnar Sverrissonar, sem hefur verið ráðinn Landnámsmaður miðbæjarins. Fólk er hvatt til að taka með sér samloku, pylsu eða uppáhaldssteikina sína í nesti og grilla með hjálp Vinnuskólans.

„Þetta er rosalega skemmtilegt verkefni og kallast þróunarverkefni hjá Vinnuskólanum. Þá erum við að nýta mannaflann í aðeins öðruvísi hluti,“ segir Ívar Örn. „Þau fóru af stað í fyrra með lifandi vegvísa þar sem vinnuskólakrakkar menntuðu sig í að gefa leiðbeiningar fyrir túrista en það sem við erum að gera núna er meira fyrir Íslendinga. Við erum að setja okkur í þau spor að vera gestir í eigin miðborg og koma auga á svæði sem eru vannýtt,“ segir hann. „Það er góður samhugur í borginni með þetta verkefni og allar deildir vinna saman við að láta þetta gerast.“

Fyrsta grillveislan var haldin í gær og stendur verkefnið yfir út allan júlímánuð. „Það er gaman að vinna með krökkunum. Þau eru svo rosalega hugmyndarík og til í þetta. Ég valdi krakka úr eins mörgum hverfum í Reykjavík og ég gat því þetta eru ekki bara krakkar sem eiga heima í miðbænum. Þeir fá að upplifa miðborgina í marga daga í röð og hvað hún hefur upp á að bjóða.“

Ef fólk vill koma ábendingum sem varða miðborgina áleiðis og hvernig hægt er að nýta hana betur getur það sent póst á landnamsmadur@reykjavik.is. Í sumar verður einnig starfrækt útitafl í miðborginni og næsta miðvikudag verður haldið taflmót frá kl 12 til 15.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.