Innlent

Fundu amfetamín í endaþarmi fanga

Litla-Hraun. Tveir fangar voru í vikunni teknir með fíkniefni í fangelsinu.
Litla-Hraun. Tveir fangar voru í vikunni teknir með fíkniefni í fangelsinu.

Fangi á Litla-Hrauni var tekinn með fjörutíu grömm af nokkuð hreinu amfetamíni innvortis í gær. Fíkniefnahundur Litla-Hrauns, Amiga, merkti á hann eftir heimsóknartíma, þar sem hann hafði fengið heimsókn. Maðurinn var þegar tekinn til rannsóknar og fundust efnin í endaþarminum á honum.

Vitað er hver var í heimsókn hjá fanganum. Málið var þegar kært til lögreglunnar á Selfossi þar sem það er til rannsóknar.

Þá kom pólskur fangi með fíkniefni í skónum úr Héraðsdómi Reykjaness í fyrradag. Þangað hafði hann verið fluttur úr lausagæslu á Litla-Hrauni þar sem hann þurfti að mæta fyrir dóm sem einn af átta manna hóp sem er nú fyrir dómi vegna stórfelldra þjófnaðarmála. Árvakurt starfsfólk fangelsisins á Litla-Hrauni fann þrjú grömm af amfetamíni og þrjátíu og sjö töflur af rítalíni og öðrum lyfseðils­skyldum ávanabindandi efnum í skósóla fangans við komuna til baka í fangelsið.

„Þetta er afrakstur ótrúlega góðrar vinnu fangavarða á Litla- Hrauni við óviðunandi aðstæður, þar sem allir öryggisklefar og aðrar vistarverur eru yfirfullar,“ segir Páll E. Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar ríkisins. „Svona árangur í starfi við þær aðstæður er afrek.“- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×