Erlent

Vonda skapið æskilegra sýnir rannsókn

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Ástralar telja sig nú hafa sýnt fram á það með rannsókn að ákaflega hollt sé að vera í mjög vondu skapi annað slagið.

Skaphundar heimsins geta nú heldur betur tekið gleði sína eftir að sálfræðiprófessorinn Joseph Forgas við Háskólann í New South Wales í Ástralíu komst að þeirri niðurstöðu að fólk í vondu skapi tekur betur eftir umhverfi sínu og hugsar á mun gagnrýnni hátt en við sem önum gegnum daginn á bleiku skýi með heimskulegt glott.

Ljúflingarnir búa reyndar að jafnaði yfir meiri sköpunargáfu og eru samvinnuþýðari og almennt sveigjanlegri en hver hefur áhuga á svoleiðis fólki? Og hvernig rannsaka sálfræðingar svona lagað? Forgas og samstarfsfólk hans kom hópi fólks í ömurlegt skap með því að láta það horfa á leiðinlegar kvikmyndir og rifja upp verstu augnablik ævi sinnar.

Þegar þessi hópur var svo borinn saman við annan og hressari hóp kom í ljós að fúli hópurinn hrapaði síður að vafasömum ályktunum og lét fordóma síður afvegaleiða sig við ákvarðanatöku. Hrygga fólkið varð meira að segja mun pennafærara en ella í hryggð sinni og setti fram lipran texta með góðum rökstuðningi.

Þá reyndust neikvæðar hugsanir stórbæta minni fólks líka. Rannsóknin er kynnt í nýjasta tölublaði Australian Science og nú skulum við bara muna það að lífið er ömurlegt. Þá gengur allt miklu betur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×