Innlent

Kveður bæinn selja hús á undirverði

Róbert Hlöðversson
Róbert Hlöðversson

 „Það að bærinn ætli að greiða kostnað vegna dagdvalar með hluta fasteignar­innar hlýtur að vera lögleysa,“ segir í bókun Róberts Hlöðverssonar, oddvita minnihlutans í bæjarráði Hveragerðis.

Róbert gagnrýnir sölu bæjarins á húseigninni Hverahlíð 24 til Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Grundar. Hann segir að miðað við kaupréttarsamning frá árinu 1999 og miðað við að umrætt hús sé 300 fermetrar ætti Grund að greiða þrjátíu milljónir króna fyrir húsið en fái það hins vegar á 20,5 milljónir með því að fá þrettán prósenta afslátt auk þess sem bærinn leggi fram 65 fermetra af húsinu sem greiðslu fyrir kostnað vegna dagdvalar eldri borgara næstu fimm árin.

„Umræddur kaupréttarsamn­ingur, sem gerður var af meirihluta Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn 1999, er búinn að kosta bæjar­félagið gríðarlega fjármuni,“ segir Róbert.

Fulltrúar meirihlutans bókuðu hins vegar á móti að samningurinn við Grund væru afar góður og sparaði bænum minnst tuttugu milljónir króna á fimm árum.

„Hvað varðar aðdróttanir um lögleysu er rétt að benda bæjarfulltrúanum á að enn sem komið er ríkir sem betur fer samningsfrelsi á Íslandi og því er heimilt að semja um allt það sem ekki er andstætt lögum eða brot gegn almennu siðferði. Hvorugt er til staðar hér en ef bæjarfulltrúinn gæti bent á lagagrein sem verið er að brjóta væri það ágætt,“ bókuðu Aldís Hafsteinsdóttur bæjarstjóri og Guðmundur Þór Guðjónsson. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×