Innlent

Árvakur skuldar 4,5 milljarða

Prentsmiðja Morgunblaðsins í Hádegismóum.
Prentsmiðja Morgunblaðsins í Hádegismóum.

Útgáfufélag Morgunblaðsins, Árvakur, skuldar 4,5 milljarða króna og skilaði 900 milljóna króna lakari afkomu á seinasta ári en áætlun gerði upphaflega ráð fyrir. Landsbankinn lánaði Árvakri 900 milljónir króna án veðtrygginga meðan Björgólfur Guðmundsson var ráðandi eigandi bankans og útgáfunnar. Þetta kemur fram í trúnaðargögnum sem DV birtir í dag.

Skuldar ríkisbankanum 3,5 milljarða

Árvakur skuldar Glitni liðlega 3,5 milljarða króna og eru stærstu lánin vegna prentsmiðju Morgunblaðsins í Hádegismóum. Skammtímasamningur var gerður við bankann í desember um að halda rekstrinum á floti næstu vikurnar eftir að ekki tókst að greiða öll laun starfsmanna fyrir en um miðjan mánuðinn. Útgáfufélagið þarfnast milljarðs í nýtt hlutafé sem Glitnir reynir nú að selja fjárfestum.

Í DV kemur fram að Árvakur þurfi að minnsta kosti 150 milljónir króna í lausafé um hver mánaðarmót. Forsvarsmenn Árvakurs og Glitnis hafa tekið sér tíma fram eftir þessum mánuði til að endurfjármagna félagið.

900 milljóna króna lakari útkoma

Áætlanir útgáfufélagins fyrir nýliðið ár gerðu fyrir 340 milljón króna rekstrarafgangi. Þær áætlanir stóðust ekki og var niðurstaðan 570 milljón króna halli sem er ríflega 900 milljón króna lakari afkoma en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×