Innlent

Segir umræðuna í sjálfheldu

Einar K. Guðfinnsson útilokar ekki lengur viðræður við ESB vegna endurmats í Evrópumálum sem nú fer fram hérlendis.
Einar K. Guðfinnsson útilokar ekki lengur viðræður við ESB vegna endurmats í Evrópumálum sem nú fer fram hérlendis. fréttablaðið/vilhelm

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra útilokar ekki lengur að látið verði á það reyna hvaða árangur gæti náðst í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Hann telur það nauðsynlegt í ljósi þess endurmats sem nú fer fram í Evrópumálum í kjölfar bankahrunsins. Hann segir hins vegar ljóst að samningsmarkmið slíkra viðræðna yrðu út frá hagsmunum Íslands og gengu lengra en hjá öðrum þjóðum.

Sinnaskipti Einars komu fram í erindi hans á málþingi Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum, í gær. Hann segir að ekki verði dvalið lengur við þá spurningu hvaða kostir standi Íslandi til boða. „Kjarni málsins er sá að þeirri spurningu þarf að svara. Ekki bara í huga okkar sem höfum ákveðnar skoðanir á málinu, því það er alveg ljóst að almenningur unir ekki öðru en fá aðkomu að svarinu. Það er nauðsynlegt að við rífum okkur út úr þeirri sjálfheldu sem við erum stödd í með þessa umræðu,“ sagði Einar í erindi sínu.

Einar sagði jafnframt að þegar rætt væri um stöðu sjávarútvegs í samhengi við Evrópusambandsaðild væri eitt ljóst í hans huga. „Við getum ekki unað þeirri stöðu sem aðrar þjóðir hafa þurft að sætta sig við. Sérstaða okkar er algjör.“ Í þessu ljósi muni Ísland aldrei semja um að gefa eftir forræðið yfir fiskimiðum þjóðarinnar.

- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×