Lífið

Snæddi baksviðs með Santana og Metallica

Draumadjobb Hrannar Hafsteisson stjórnar ljósasýningunni á stærsta sviði Hróarskelduhátíðarinnar.
fréttablaðið/arnþór
Draumadjobb Hrannar Hafsteisson stjórnar ljósasýningunni á stærsta sviði Hróarskelduhátíðarinnar. fréttablaðið/arnþór

Hrannar Hafsteinsson er einn þeirra Íslendinga sem eru á leiðinni á Hróarskelduhátíðina í Danmörku. Ekki þó til að njóta góðrar tónlistar heldur til að sjá um að lýsingin á stærsta sviði hátíðarinnar, Orange-sviðinu, verði eins og best verður á kosið.

„Þetta er launað áhugamál. Sumir fara í ferðalög en ég set upp ljós og græjur,“ segir Hrannar Hafsteinsson sem er titlaður sem tæknistjóri yfir ljósunum á Orange-sviðinu á Hróarskelduhátíðinni. Undir hans stjórn eru fimm til tíu manns sem saman sjá um að sviðsljósið beinist að flytjendum á borð við Oasis, Coldplay, Kanye West og Nick Cave and the Bad Seeds, sem allir spila á Orange-sviðinu í ár. Pláss er fyrir um sextíu þúsund áhorfendur fyrir framan sviðið og því er afar mikilvægt að ljósasýningin sé eins tilþrifamikil og hægt er til að fanga athygli gestanna.

Hrannar hefur starfað á Hróarskeldu síðan 2003, fyrir utan tvö síðastliðin ár þegar hann ákvað að eigin sögn að gifta sig og eignast dóttur. Hann fékk starfið þegar hann bjó í Kaupmannahöfn og starfaði sem tæknistjóri hjá fyrirtækinu sem sér um tvö stærstu sviðin á hátíðinni.

Ljósafólkið á Orange-sviðinu verður þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að borða með stjörnunum sem koma þar fram og hefur Hrannar ekki farið varhluta af því.

„Við erum nokkrir af örfáum sem fáum að fara á bak við. Það er sami kokkurinn sem eldar fyrir okkur,“ segir hann. Eftirminnilegasti sessunauturinn til þessa er gítargoðið Carlos Santana.

„Hann er mjög skemmtilegur gæi og það var gaman að ræða við hann. Hann var að spyrja um Ísland, hvernig það væri og sagði að hann þyrfti einhvern tímann að koma og spila þar.“

Rokkararnir í Metallica sátu einnig með honum til borðs eitt sinn, rétt eins og svo margar aðrar stjörnur. Ein vildi þó hvorki hafa afskipti af tæknimönnunum né öðru fólki baksviðs og hélt sig algjörlega til hlés. Það var Axl Rose, söngvari Guns N"Roses, sem er einmitt þekktur fyrir sérvisku sína.

„Það eru sér girðingar fyrir innsta svæði en hann mætti með eigin girðingu, þannig að hann var með girðingu innan girðingarsvæðisins. Það var dálítið sérstakt og hafði aldrei verið gert áður,“ segir Hrannar, sem fer út til Danmerkur í vikunni og hefur undirbúninginn sem tekur nokkra daga. Hátíðin sjálf stendur síðan yfir frá 2.-5. júlí.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.