Innlent

Afstaða Borgarahreyfingarinnar til aðildarviðræða enn óráðin

Afstaða Borgarahreyfingarinnar er enn óráðin þrátt fyrir að þrír þingmenn hreyfingarinnar hafi gefið út þá hótun í dag að þau myndu ekki kjósa með frumvarpi ríkisstjórnarinnar um aðildarviðræður að ESB heldur með breytingatillögu minnihlutans um tvöfalda atkvæðagreiðslu.

Borgarahreyfingin vill að ríkisstjórnin hætti við Icesave - samninginn og í staðinn munu þeir kjósa með aðildarviðræðum ríkistjórnarinnar.

Svo virðist sem þriðja afstaðan sé hugsanlega að fæðast en Þór Saari, þingmaður Borgarahreyfingarinnar sagði í viðtali við Kastljós í kvöld að það væri ekki loku skotið fyrir það að þingmennirnir þrír myndu kjósa með frumvarpi ríkisstjórnar ef hún sættist á tillögur varðandi Icesave málið.

Haft var samband við Birgittu Jónsdóttur en hún vildi ekkert tjá sig um atburði dagsins né það sem á gengi inn á þingi.

Hún staðfesti þó að viðræður stæðu yfir. Mögulegt er að niðurstaða fáist í málið í kvöld en með atkvæðum Borgarahreyfingarinnar verður staða ríkisstjórnarinnar talsvert vænlegri við atkvæðagreiðsluna sem er fyrirhuguð um hádegi á morgun.

Þess má geta að Þráinn Bertelsson hyggst kjósa með tillögu ríkistjórnarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×