Innlent

Mansalsmálið: Íslendingurinn látinn laus

Íslendingur sem verið hefur í haldi vegna gruns um að hann tengist umfangsmiklu mansalsmáli verður látinn laus í dag. Lögreglan á Suðurnesjum ætlar ekki að fara fram á að gæsluvarðhaldinu yfir honum verði framlengt.

Málið á rætur sínar að rekja til þess þegar nítján ára stúlka frá Litháen trylltist í flugvél sem var á leið hingað til lands. Eftir að hún var handtekinn sagði hún yfirvöldum að hún væri fórnarlamb mansals.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er talið að mansalið tengist vændisstarfsemi, sem grunur leikur á að rekin hafi verið í tengslum við súlustað í Reykjavík.

Alls hafa fimm litháar verið handteknir vegna málsins og hafa þeir setið í gæsluvarðhaldi undanfarnar vikur. Nú fyrir hádegi voru þeir allir leiddir fyrir dómara í héraðsdómi Reykjaness og þess krafist að gæsluvarðhaldinu yrði framlengt. Héraðsdómur féllst á þá kröfu og munu Litháarnir því sitja áfram í haldi til 2. desember eða í þrjár vikur til viðbótar.

Íslenskur karlmaður sem einnig hefur setið í gæsluvarðhaldi vegna þess máls verður hins vegar látinn laus seinna í dag. Maðurinn er vinnuveitandi Litháanna og er talinn tengjast málinu. Lögreglan taldi hins vegar ekki nauðsynlegt fyrir rannsókn málsins að hafa hann áfram í haldi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×