Innlent

Landvernd: Orkuveitan villir um fyrir fólki

Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landverndar.
Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landverndar.

Bergur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landverndar segir að tilkynning Orkuveitunnar um að til standi að hefja hreinsun hveralyktar úr gufunni, sem kemur frá virkjun fyrirtækisins á Hellisheiði, sé til þess fallin að villa um fyrir fólki. Hann segir að látið sé hjá líða að greina frá því að losun brennisteinsvetnis er hvað mest þegar holur eru í blæstri.

„Blástursferlið stendur yfir í nokkra mánuði áður en hægt er að taka holurnar í notkun. Ekki er hægt að hreinsa brennisteinsvetni úr holum sem eru í blæstri. Frekari boranir og holublástur á Hellisheiðinni samhliða nýjum virkjunum munu því auka mengunarálag af völdum brennisteinsvetnis," segir Bergur.

„Nú hefur mengun frá starfandi virjunum náð heilsuverndarviðmiði Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar og eins og fram kemur í tilkynningu Umhverfisstofnunar eru langtímaáhrif brennisteinsvetnis í lágum styrk á heilsu fólks ekki vel rannsökuð. Æskilegt væri að Orkuveita Reykjavíkur setji upp og sannreyni hreinsivirki á starfandi virkjanir áður en ráðist verður í frekari boranir með tilheyrandi holublæstri og aukinni brennisteinsvetnismengun," segir hann einnig.

Bergur staðhæfir einnig að engin reynsla sé komin á „þær tæknilegu lausnir sem lagðar eru til af hálfu OR, þ.e. niðurdælingu á brennisteinsvetninu. Því er alsendis óljóst um hvort lausnin sé raunhæf. Hefðbundnar og þekktar lausnir til hreinaunar á brennisteinsvetni fela jafnan í sér efnafræðilega útfellingu efnisins. "




Tengdar fréttir

Orkuveitan vinnur að hreinsun hveralyktar

Orkuveita Reykjavíkur hefur unnið að því um hríð að hefja hreinsun hveralyktar úr gufunni, sem kemur frá virkjun fyrirtækisins á Hellisheiði. Lyktinni veldur brennisteinsvetni og í vor mun hefjast blöndun þess við niðurrennslisvatn frá virkjuninni, þannig að því verður veitt niður í jarðhitageyminn, þaðan sem það kom upphaflega. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkuveitunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×