Lífið

Mikill áhugi frá útlöndum

Anna og kamilla Anna Hildur Hildibrandsdóttir hjá Útón og Kamilla Ingibergsdóttir halda utan um hátíðina You Are In Control. Fréttablaðið/valli
Anna og kamilla Anna Hildur Hildibrandsdóttir hjá Útón og Kamilla Ingibergsdóttir halda utan um hátíðina You Are In Control. Fréttablaðið/valli

Búist er við því að um þrjátíu innlendir og erlendir aðilar haldi fyrirlestra á tónlistarráðstefnunni You Are In Control sem verður haldin á Hilton-hótelinu í Reykjavík dagana 23. og 24. september.

„Það hefur verið mikill áhugi að utan og við höfum verið að selja pakkaferðir frá Norður-Ameríku og Evrópu,“ segir Kamilla Ingibergsdóttir, verkefnastjóri ráðstefnunnar. „Hérna verður fólk frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Norðurlöndunum líka. Það er mikill áhugi á ráðstefnunni í Svíþjóð og við munum fá helling af fólki þaðan, bæði gesti og fólk sem ætlar að tala.“

Á meðal fyrirlesara verður Alice Schneider sem stjórnar sjónvarpstónlistardeild hjá NBC/Universal í Bandaríkjunum og velur m.a. tónlist í þætti á borð við Heros, Trauma og Caprica. Einnig verður hér bandaríski kvikmyndagerðarmaðurinn Cory McAbee sem var valinn á Sundance-kvikmynda-hátíðinni til að búa til eina af fimm stuttmyndum til að dreifa í gegnum farsíma.

Á You Are In Control verður rætt um nýjar leiðir í dreifingu á menningar- og afþreyingarefni, aukin tækifæri í markaðssetningu og hlutverk samfélagsvefja.

„Í fyrra mynduðust mjög góð viðskiptatengsl. Gogoyoko myndaði góð tengsl við erlenda aðila, Dr. Spock var beðinn um tónlist við bíómynd í Los Angeles og Lay Low komst á samning hjá Nettwerk. Það sprettur upp fullt af hugmyndum á svona hátíð. Það borða allir saman hádegismat og síðan eru sameiginlegir kaffitímar,“ segir Kamilla um aðstöðuna á Hilton-hótelinu.

„Við erum að skapa rými til að fólk geti verið að tala saman og þess vegna er þetta allt á einum stað, því flestir ráðstefnugestir munu gista þarna líka.“

Ráðstefnugjald er 36.000 krónur við inngang. Þeir sem skrá sig fyrir 1. september borga 24.000 en Íslendingar sem skrá sig fyrir 1. september fá 50% afslátt og greiða 12.000 krónur. Skráning er á greta@utflutningsrad.is.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.