Lífið

Áheitanúmer söfnunarinnar „Á allra vörum“ opnuð

Svanhildur Hólm kemur til með að vinna við útsendingu söfnunarinnar.
Svanhildur Hólm kemur til með að vinna við útsendingu söfnunarinnar. Mynd/EÓI
Áheitanúmer söfnunarátaksins „Á allra vörum" voru opnuð í morgun og við sama tækifæri reið Já á vaðið og gaf 118.000 krónur í söfnunina, sem að þessu sinni er til styrktar hvíldarheimili fyrir krabbameinssjúk börn og fjölskyldur þeirra.

Þá er vefur Já.is málaður bleikur fram á föstudagskvöld. Átakið hófst í lok maí síðastliðinn með sölu á varaglossum frá Dior í samvinnu við Heildverslun Halldórs Jónssonar og Iceland Express. Glossin voru seld í verslunum víðsvegar um landið og um borð í flugvélum Iceland Express.

Lokahnykkur átaksins verður söfnunarþátturinn „Á allra vörum" í beinni útsendingu á SkjáEinum föstudagskvöldið 28. ágúst kl. 21.00. Söfnunarþátturinn verður „skemmtiþáttur með tilgangi", þar sem landsþekktar konur og karlar leggja málefninu lið á margvíslegan hátt og allir gefa vinnu sína til styrktar hvíldarheimili krabbameinssjúkra barna.

Meðal þeirra sem vinna að útsendingunni eru Jóhanna Vilhjálmsdóttir, Svanhildur Hólm Valsdóttir og Guðrún Þórðardóttir, sem stýra þættinum og þar með söfnuninni.

Börn og unglingar úr söng- og leiklistarskólanum Sönglist styðja við bakið á jafnöldrum sínum og hljómsveitin Mannakorn með þá Magnús Eiríksson og Pálma Gunnarsson í broddi fylkingar flytur nokkur lög, en Mannakorn hefur gefið allan ágóða af laginu Von í söfnunina.

Stöllurnar úr leiksýningunni Fúlar á móti segja sitt álit á lífinu og tilverunni - og þannig mætti áfram telja. Auk þessa kynnast áhorfendur því hvernig fjölskyldur sem kljást við þennan illvíga sjúkdóm læra að lifa með og takast á við krabbamein og hvers vegna hvíldarheimili er svo þýðingarmikið fyrir börnin og fjölskyldur þeirra.

Hægt er að leggja sitt af mörkum með því að hringja í áheitanúmerin eða leggja inn á reikning „Á allra vörum". Áheitanúmerin eru: 903 1000 fyrir þá sem vilja gefa 1.000 kr., 903 3000 fyrir þá sem vilja gefa 3.000 kr. og 903 5000 fyrir þá sem vilja gefa 5.000 kr.

Númerin verða opin frá og með deginum í dag og allt þar til útsendingu lýkur á föstudagskvöld. Á meðan á beinni útsendingu stendur verður einnig hægt að hringja í síma 595 6000 þar sem þjóðþekktar konur sitja í þjónustuveri Já og taka við framlögum. Reikningsnúmer átaksins er 0101-26-55555 og kennitala 510608-1350.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.