Innlent

Þarf að breyta viðhorfi til stjórnsýslunnar

Ragnhildur Arnljótsdóttir ráðuneytisstjóri segir nauðsynlegt að breyta viðhorfi til stjórnsýslunnar. Mynd/ Anton Brink.
Ragnhildur Arnljótsdóttir ráðuneytisstjóri segir nauðsynlegt að breyta viðhorfi til stjórnsýslunnar. Mynd/ Anton Brink.
Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, segir að stjórnsýslan þurfi að breyta því viðhorfi sem fram kemur í könnun Háskólans á Bifröst. Könnunin, sem kynnt var í dag, leiddi í ljós að 67% aðspurðra telja að spilling í íslenskri stjórnsýslu sé mikil eða mjög mikil. Ragnhildur segir að afar mikilvægt sé að almenningur beri traust til stjórnsýslunnar sem eigi fyrst og fremst að þjóna almenningi frá morgni til kvölds. Það eigi að vera stöðugt verkefni stjórnsýslunnar að þróa hana og breyta skipulagi hennar með það að markmiði að gera hana gagnsærri og skilvirkari. Ragnhildur segir að þegar sé unnið að ýmsum verkefnum í þessu efni.

Ragnhildur segir að verið sé að ganga frá skipun nefndar sem eigi að endurskoða lög um Stjórnarráðið og þá meðal annars ráðningar pólitískra aðstoðarmanna og vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. Þá renni í dag út frestur almennings til þess að veita umsögn um drög að siðareglum fyrir ráðherra og alla starfsmenn stjórnsýslunnar sem síðan verði lagðar fyrir Alþingi í tengslum við breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands. Jafnframt sé verið að endurskoða upplýsingalögin meðal annars með það að markmiði að auka aðgang fjölmiðla og almennings að gögnum innan stjórnsýslunnar og Ragnhildur segist sjá fyrir sér að í framtíðinni verði málaskrá Stjórnarráðsins jafnvel meira og minna opin fyrir almenningi þannig að fólk geti kynnt sér hvernig stjórnsýslan vinnur og að hvaða málum starfsmenn hennar sé að vinna hverju sinni.

Þá segist Ragnhildur líka vilja sjá að vinnubrögð innan Stjórnarráðsins og stjórnsýslunnar verði kynnt almenningi mun betur en gert hefur verið og það megi m.a. gera með því að móta fræðslu fyrir börn og unglinga og raunar fólk á öllum aldri. Sóknarfærin sé mörg og þau eigi að nýta af fullum krafti og af fagmennsku þannig að almenningur sjái með eigin augum hvernig stjórnsýslan vinnur frá degi til dags.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×