Erlent

Efnahagshrun blasir við eyjunni Atígva vegna bandarísks auðjöfurs

Guðjón Helgason skrifar
Allen Stanford,
Allen Stanford,
Algjört hrun blasir við efnahagslífi á karabísku eyjunni Atígva vegna meintra fjársvika og peningaþvættis bandaríska auðjöfursins Allen Stanford. Bandarísk yfirvöld leita hans, en Stanford fór í felur eftir að ákæra var lögð fram gegn honum.

Fjármálaeftirlitið bandaríska hefur lagt fram kæru á hendur Stanford og tveimur samstarfsmönnum hans um átta milljarða dala fjársvik. Bandaríska sjónvarpsstöðin ABC hefur þar fyrir utan eftir heimildarmönnum að bandaríska alríkislögreglan, FBI; sé að rannsaka hvort Stanford hafi tekið þátt í að þvætta eiturlyfjagróða. Yfirvöld hafa gert áhlaup á skrifstofur Stanfords á nokkrum stöðum í Bandaríkjunum og lagt hald á tölvur og gögn. Einkaflugvél Stanfords mun einnig til rannsóknar hjá lögreglu.

Ekki er vitað hvar Stanford er niðurkominn en hann slapp undan löngum armi laganna og fer nú huldu höfði. Talsmaður bandaríska fjármáleftirlitsins segir vel koma til greina að hann hafi flúið frá Bandaríkjunum þar sem hann átti að svara til saka.

Íbúar í Ekvador, Kólumbíu, Mexíkó, Perú, Venesúaela og á karíbaeyjunni Antígva eru uggandi enda veldi Stanfords töluvert á þessum stöðum. Þar hefur hann komið að stofnun banka og ýmissa fyrirtækja. Áhlaup hafa verið gerð á banka sem tengjast honum af ótta við að fé verði fryst eða gufi upp. Yfirvöld í löndunum hafa heitið því að tryggja innistæður. Viðskipti með bréf í félögum Stanfords hafa verið stöðvuð í kauphöllunum í Kólumbíu og Ekvador.

Áfallið verður að mati sérfræðinga hlutfallslega mest á Antígva þar sem sextíu og níu þúsund manns búa. Eyjan er tæpir þrjú hundruð ferkílómetrar að stærð. Stanford á og rekur fjölda fyrirtækja þar og er stærsti vinnuveitandinn í einkageiranum á Antígva.

Baldwin Spencer, forsætisráðherra, sagði málið geta leitt miklar hörmungar yfir eyríkið en hvatti um leið íbúa til að sýna stillingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×