Erlent

Snjórinn að hverfa á Kilimanjaro

Óli Tynes skrifar
Kilimanjaro í Tanzaníu.
Kilimanjaro í Tanzaníu.

Snjórinn á Kilimanjaro gæti horfið á næstu tveim áratugum að mati vísindamanna sem hafa nýlokið við rannsókn á þessu hæsta fjalli Afríku. Þeir telja að hlýnun jarðar frekar en staðbundnar breytingar á veðri í Tanzaníu valdi þessu.

Við rannsóknir tóku þeir til dæmis mælingar sem gerðar voru á þykkt íshellunnar árið 2000 og báru þær saman við nýjar mælingar. Samkvæmt þeim hafa sex til sautján fet horfið ofan af hellunni.

Vísindamennirnir spá því að ef heldur sem horfir gæti fjallið verið orðið íshellulaust árið 2022. Hinn frægi snjór á Kilimanjaro væri þá aðeins til í smásögu Ernest Hemingways sem bar það nafn.

Leiðtogi vísindateymisins var prófessor Lonnie Thompson frá fylkisháskólanum háskólanum í Ohio í Bandaríkjunum.

Í umfjöllun Sky fréttastofunnar um þetta segir að Thompson hafi bent á að snjórinn á Kilimanjaro hafi þakið fjallstoppinn í 11.700 ár.

Í þessari umfjöllun er ekki getið um afleiðingar þess að íshellan hverfi. Slíkt getur hinsvegar haft alvarleg áhrif á vatnsbúskap og þarmeð bæði landbúnað og framboð á neysluvatni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×