Innlent

Góðkunningjar lögreglunnar dæmdir fyrir ítrekuð brot

Tveir karlmenn á þrítugsaldri voru dæmdir fyrir ofbeldisbrot, vopnalagabrot og brot gegn valdstjórninni í Héraðsdómi Austurlands í dag.

Þeir eru dæmdir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og ólögmæta nauðung, með því að hafa í sameiningu ráðist á karlmann og meðal annars kýlt hann og sparkað í hann og lamið hann í höfuðið með barefli þannig að hann hlaut töluverð meiðsl af. Þeir neyddu hann jafnframt til að hlaupa nakinn um húsnæðið sem þeir voru staddir í, en árásin var gerð í geymslu á Höfn í Hornarfirði þann 16 febrúar í fyrra. Þeir hótuðu honum jafnframt frekari líkamsmeiðingum.

Sá yngri var einnig dæmdur fyrir að skalla lögreglumann við skyldustörf þar sem hann var staddur í fangaklefa í lögreglustöðinni á Hverfisgötu í júní 2008.

Þá eru mennirnir jafnframt dæmdir fyrir að hafa brotist inn í verkstæði á Höfn í nóvember 2007, stela þaðan ýmsum verkfærum og áhöldum, heimilistækjum, varahlutum í ökutæki, riffli og haglabyssu.

Annar mannanna, sá eldri, hlaut fjögurra mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm. Sá yngri hlaut fimm mánaða óskilorðsbundinn dóm. Mennirnir hafa ítrekað komið við sögu lögreglu og verið dæmdir fyrir margvísleg brot.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×