Lífið

Ný plötuútgáfa stelur senunni

Ó borg mín borg Steinþór og félagar hans hjá Borginni fóstra íslenskt tónlistarlíf. Fréttablaðið/Valli
Ó borg mín borg Steinþór og félagar hans hjá Borginni fóstra íslenskt tónlistarlíf. Fréttablaðið/Valli

Steinþór Helgi Arnsteinsson, Guðmundur Kristinn Jónsson, betur þekktur sem Kiddi úr Hjálmum og Baldvin Esra Einarsson hafa stofnað nýtt plötufyrirtæki sem ber nafnið Hljómplötuútgáfan Borgin.

„Þetta byrjaði þannig að Kiddi vildi fá að leika sér meira, fá meira listrænt frelsi. Hann fékk Baldvin Esra frá Kimi Records til að aðstoða sig við dreifingu og svo var ég fenginn til að vera starfsmaður fyrirtækisins," segir Steinþór Helgi um nýju plötuútgáfuna.

Unnið hefur verið í nokkra mánuði í leynum en á morgun verður haldinn blaðamannafundur þar sem ljóstrað verður upp hvaða útgáfur eru á döfinni hjá Borginni. Þá verða haldnir tónleikar með Sigríði Thorlacius og hip hop hljómsveitinni Fallegum mönnum á Batteríinu annað kvöld.

Fyrstu plöturnar sem gefnar verða út hjá Borginni eru ný plata Egils Sæbjörnssonar, „live" plata með Megasi og plata Baggalúts, Sólskinið í Dakota, en Megas og Gylfi Ægisson koma þar við sögu. Í kjölfarið fylgja svo Hjálmar „og vonandi Hjaltalín og Sigríður Thorlacius, ef allt gengur að óskum," svo fátt eitt sé nefnt.

Steinþór segir Borgina engri líka.

„Það á eftir að koma fólki á óvart hvað við verðum með stóran og breiðan hóp tónlistarmanna."

Hann tekur fram að fyrirtækið sé ekki stofnað vegna ósættis við önnur plötufyrirtæki. „Þetta er fyrst og fremst gert með hagsmuni tónlistarmanna að leiðarljósi.

Við hlökkum bara til að takast á við miklar áskoranir á þessum síðustu og verstu tímum." Þeir eru bjartsýnir þrátt fyrir að plötusala dragist saman í heiminum.

„Við erum hvergi bangnir og vitum að íslensk tónlist heldur áfram að seljast. Við erum ekki að gera þetta til að græða fullt af peningum heldur erum við fyrst og fremst að fóstra íslenskt tónlistarlíf."

kbs@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.