Lífið

Norrænt kvikmyndastarf

Kvikmyndir Brúðguminn er ein þeirra mynda sem nýtur góðs af samstarfi Norðurlanda á kvikmyndasviðinu. Margrét Vilhjálmsdóttir og Hilmir Snær í hlutverkum sínum.  Mynd Sögn
Kvikmyndir Brúðguminn er ein þeirra mynda sem nýtur góðs af samstarfi Norðurlanda á kvikmyndasviðinu. Margrét Vilhjálmsdóttir og Hilmir Snær í hlutverkum sínum. Mynd Sögn

Norrænu menningarmálaráðherrarnir hafa gert fimm ára samkomulag við Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðinn. Samkomulagið er einn stærsti liðurinn í fjárlögum menningarmálaráðherranna og mun styrkja Norðurlönd í alþjóðlegri samkeppni á sviði kvikmyndagerðar og framleiðslu sjónvarpsefnis.

Sjónvarpsáhorfendur og kvikmyndaunnendur á Norðurlöndum geta glaðst yfir víðtækum pólitískum stuðningi við norræna kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð. Á fundi sem haldinn var í Reykjavík undirrituðu norrænu menningarmálaráðherrarnir og fulltrúar norrænna kvikmyndastofnana og sjónvarpsstöðva á Norðurlöndum nýtt samkomulag við Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðinn. Samkomulagið gildir til loka árs 2014. Fjárhagsáætlun sjóðsins verður áfram sú sama.

„Við getum glaðst yfir því að þrátt fyrir fjármálakreppu og niðurskurð í framlögum til menningarmála þá hefur tekist að tryggja rekstur sjóðsins með fimm ára samkomulagi og árlegu fjárframlagi sem nemur u.þ.b. 70 milljónum danskra króna. Við teljum það vera viðurkenningu á starfi sjóðsins. Samstarfslíkanið, sem felur í sér að Norræna ráðherranefndin starfar með bæði norræna kvikmynda- og sjónvarpsgeiranum, er einstakt á alþjóðavettvangi, en það stuðlar að því að viðhalda samkeppnishæfni og gæðum í framleiðslunni“, segir Hanne Palmquist, framkvæmdastjóri Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins.

Samkomulagið við Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðinn var undirritað af 17 samstarfsaðilum. Þetta er einstakt, vegna þess að samstarfsaðilar eru svo margir og ólíkir; kvikmyndastofnanir/sjóðir, ríkisútvarpsstöðvar og einkareknar sjónvarpsstöðvar. Katrín Jakobsdóttir, ráðherra menningarmála, er ánægð með samkomulagið. Hún leggur áherslu á að það sé mikilvægur þáttur í hnattvæðingarstefnu forsætis- og menningarmálaráðherranna.

„Kvikmyndir og sjónvarp eru einstakir tjáningarmiðlar. Þeir miðla annars vegar list og menningu og hins vegar eru þeir atvinnurekstur og iðnaður. Þannig verður kvikmynda- og sjónvarpsframleiðslan mikilvægur þáttur í nýsköpun og skapandi iðnaði.

Norðurlönd hafa hér mikilvægu hlutverki að gegna. Samkomulagið mun stuðla að því að viðhalda alþjóðlegri samkeppnishæfni þeirra á þessu sviði“, segir Katrín Jakobsdóttir og bætir við: „Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn hefur jafnframt fengið eina milljón danskra króna í aukafjárveitingu til að markaðssetja norrænar kvikmyndir og hæfileikafólk á alþjóðavettvangi.“

Á ráðherrann þá við sérstakt átak til að styrkja dreifingu einstakra kvikmynda sem nú er í undirbúningi. pbb@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.