Lífið

Hundrað útlendingar sóttu um

garðar stefánsson Um eitt hundrað umsóknir frá ungu erlendu kvikmyndagerðarfólki hafa borist vegna kvikmyndasmiðjunnar.fréttablaðið/valli
garðar stefánsson Um eitt hundrað umsóknir frá ungu erlendu kvikmyndagerðarfólki hafa borist vegna kvikmyndasmiðjunnar.fréttablaðið/valli

„Þetta er stóraukinn fjöldi,“ segir Garðar Stefánsson sem skipuleggur kvikmyndasmiðju Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík sem verður haldin í næsta mánuði.

Um eitt hundrað umsóknir frá ungu kvikmyndagerðarfólki í Evrópu og Ameríku hafa borist vegna smiðjunnar en á síðasta ári voru þær um 25 talsins.

„Ísland er orðið mjög þekkt land og alræmt. Við erum búin að fá mjög mikla umfjöllun í fréttunum og það er líka ódýrt að koma hingað. Við höfum líka verið að kynna þetta vel úti,“ segir Garðar um þennan mikla fjölda.

Í kvikmyndasmiðjunni, sem stendur yfir í þrjá daga, fær fólk tækifæri til að hittast í Reykjavík og upplifa það sem er að gerast í kvikmyndaiðnaði beggja vegna Atlantshafsins. Staðsetningunni er ætlað að brúa bilið á milli heimsálfanna tveggja, bæði landfræðilega og menningarlega.

„Hugmyndin er að fólk sé að fara úr stuttmyndinni yfir í mynd í fullri lengd og þessi smiðja er ætluð sem stökkpallur fyrir það. Þátttakendurnir fá ráðleggingar frá gestum sem sækja hátíðina heim og íslenskum leikstjórum,“ segir Garðar.

Búið er að loka á umsóknir erlendis frá en Íslendingum stendur enn til boða að sækja um, eða þangað til 1. september. Á endanum verður 50 til 60 manna hópur valinn og því komast mun færri að en vilja. Í framhaldinu gefst hinu unga kvikmyndagerðarfólki færi á að senda inn mynd til sýningar á hátíðinni og keppa um hvatningarverðlaun RIFF, Gullna eggið. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.