Lífið

Deyja margoft á dag

Melkorka S. Magnúsdóttir og Katrín Gunnarsdóttir drepa og deyja í nýju dansverki.Fréttablaðið/Vilhelm
Melkorka S. Magnúsdóttir og Katrín Gunnarsdóttir drepa og deyja í nýju dansverki.Fréttablaðið/Vilhelm

Hreyfiþróunarsamsteypan vinnur nú að nýju dansverki fyrir Reykjavík Dansfestival í Djassballettskóla Báru. Seinasta verk þeirra, DJ Hamingja, var tilnefnt til Grímunnar. Nýja verkið heitir Shake Me, eða Hristu mig og hlaut styrk frá Prologos-leikritunarsjóðnum. Víkingur Kristjánsson og Hannes Óli Ágústsson aðstoða þær við verkið.

„Við erum að vinna með sum af verkum Shakespeares og skoða dramatískar dauðasenur þar sem aðalpersónur falla fyrir eigin hendi, eru myrtar eða deyja í bardaga. Þessu er svo blandað saman við „power-ballöður". Við erum því að vinna út frá tveimur ofsalega dramatískum viðfangsefnum, ást og dauða," segir Katrín Gunnarsdóttir, ein úr hópnum.

Hún segir viðfangsefnið hafa verið valið vegna þess hversu fjarlægur dauðinn er fólki. „Við erum því að reyna að búa til drama og upplifa einhverjar sterkar tilfinningar í gegnum Shakespeare eða ástarlög, því við upplifum þær ekki lengur í daglegu lífi."

Þetta er í fyrsta skipti sem Hreyfiþróunarsamsteypan vinnur út frá leiktexta. Hún segir þær nálgast verkin fyrst og fremst sem dansarar. „Hvernig ætlum við að koma Shakespeare til skila í einhverju dansformi, er það yfirhöfuð hægt? Það verður bara að koma í ljós." En dramað tekur sinn toll. „Þegar maður deyr tuttugu sinnum á dag skilur það eftir sig ákveðin líkamleg ummerki. Títus er svolítið ofbeldisfullur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.