Erlent

Arctic Sea: Enginn vopnafarmur um borð að sögn Lavrovs

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. Mynd/AP

Utanríkisráðherra Rússlands vísar alfarið á bug fréttum þess efnis að flutningaskiptið Arctic Sea, sem hvarf um tíma í sumar, hafi verið að flytja háþróaðar rússneskar loftvarnareldflaugar til Írans.

Skipið hvarf í lok júlí en það var sagt flytja timburfarm frá Finnlandi til Alsír. Rússneski sjóherinn fann skipið nærri Grænhöfðaeyjum um miðjan ágúst. Átta menn voru handteknir og ákærðir fyrir að ræna því. Í síðustu viku hafði Lundúnablaðið Times eftir heimildarmönnum í Rússlandi og Ísrael að skipið hafi verið að flytja vopn til Írans. Þá greindi breska ríkisútvarpið, BBC, frá því að rússneskur blaðamaður hefði flúið heimalandið eftir að hótað hafi verið að handtaka hann vegna frétta sem hann hafi skrifað um meintan vopnaflutning um borð í skipinu.

Öryggislögreglan rússneska hefur ekki tjáð sig um ásakanir blaðamannsins. Vangaveltur hafa verið í erlendum miðlum um að útsendarar ísraelsku leyniþjónustunnar, Mossad, hafi stöðvað ferð skipsins og ætlað sér að koma í veg fyrir að ólögleg vopnasending bærist í hendur herskárra í Mið-Austurlöndum.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, vísar þessu alfarið á bug og segir um rangar fréttir að ræða. Málið verið rannsakað ofan í kjölinn fyrir opnum tjöldum. Maltverskum yfirvöldum verði boðið að taka þátt enda Arctic Sea skráð á Möltu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×