Fótbolti

Ferguson og McGregor gáfu Skotum fingurinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Forsíða The Scottish Sun og baksíða Daily Record í dag.
Forsíða The Scottish Sun og baksíða Daily Record í dag.

Þeir Barry Ferguson og Allan McGregor svöruðu stuðningsmönnum Skotlands fullum hálsi þegar púað var á þá skömmu fyrir leik Skotlands og Íslands í gær.

Þegar vallarþulurinn kynnti leikmenn til sögunnar púuðu áhorfendur á þá Ferguson og McGregor. Þeir brutu agareglur landsliðsins er þeir sátu lengi við drykkju nú um helgina. Þeir báðust þó afsökunar á athæfi sínu og fengu að vera á bekknum í gær. Hvorugur kom þó við sögu í leiknum.

Skosku dagblöðin birta mörg myndir af þeim tveimur þar sem þeir mynda V-merki með fingrum sínum. Þar með sendu þeir stuðningsmönnum skoska landsliðsins kaldar kveðjur en þetta fellur í sama flokk og að sýna einhverjum „fingurinn".

„Up yours, Scotland," segir í fyrirsögn á baksíðu The Scottish Sun. Daily Record tekur annan pól í hæðina og segir „You're right boys ... V were brilliant."

The Sun er svo með sérstakan átta síðna blaðakálf sem fjallar eingöngu um Barry Ferguson og vandræði hans síðustu daga. Er ekkert fjallað um leik Skotlands og Íslands á þeim stað í blaðinu heldur eingöngu rætt um skömm fyrirliðans. Á forsíðu kálfsins er fyrirsögnin „You've let us all down".






Fleiri fréttir

Sjá meira


×