Innlent

Langholtskirkju gefnar 17 milljónir króna

Framkvæmdir við bílastæði og fleira á lóðinni kostuðu um sextíu milljónir króna og söfnuðurinn var hættur að ráða við afborganir af láni.
Fréttablaðið/Vilhelm
Framkvæmdir við bílastæði og fleira á lóðinni kostuðu um sextíu milljónir króna og söfnuðurinn var hættur að ráða við afborganir af láni. Fréttablaðið/Vilhelm

 Langholtssöfnuði verða gefnar eftir 16,7 milljónir af 49,8 milljóna eftirstöðvum skuldar við Reykjavíkurborg. Borgarráð staðfesti samkomulag þess efnis á fimmtudaginn.

Gengið var frá samkonulagi borgaryfirvalda og Langholtskirkju á fundi Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra með fulltrúum safnaðarins fyrir um mánuði. Málið varðar skuldabréf sem gefið var út í apríl 2005.

Auk þess sem borgin gefur eftir þriðjung af skuld safnaðarins mun Jöfnunarsjóður sókna og kirkjuráðs greiða borgarsjóði þriðjung af skuldinni. Útbúið verður nýtt skuldabréf til fimm ára fyrir þeim þriðjungi sem eftir stendur, 16,7 milljónum króna, og mun Langholtssöfnuður greiða af því bréfi. Nýja lánið ber þriggja prósenta vexti og er verðtryggt.

Helgi Kristinsson, gjaldkeri sóknarnefndar Langholtskirkju, segir upphaflegu skuldina tilkomna vegna lóðarframkvæmda við kirkjuna. „Borgin þrýsti á okkur að ganga frá lóðinni og það má enda segja að frágangur hennar hafi hvorki verið boðlegur gagnvart íbúum hverfisins né öðrum. Eins og oft er vatt kostnaðurinn mikið upp á sig frá upphaflegu áætluninni,“ segir Helgi, sem kveður nýja samkomulagið létta söfnuðinum mikið róðurinn. „Nú sjáum við fram á að geta ráðið við þetta.“ - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×