Íslenski boltinn

Guðmundur Mete til Vals

Varnarmaðurinn Guðmundur Viðar Mete er genginn í raðir Valsmanna eftir að hafa spilað með Keflavík síðan árið 2005. Þetta kemur fram á fotbolti.net í dag.

Guðmundur er 28 ára gamall og spilaði alls 12 leiki með Keflavík síðasta sumar. Hann er áttundi leikmaðurinn sem gengur í raðir Valsmanna fyrir komandi leiktíð.

Vísir hafði samband við Guðmund og spurði hann hvernig stæði á félagaskiptunum. 

"Við ákváðum að rifta samningi mínum við Keflavík og það er betra fyrir mig að spila í Reykjavík af því ég bæði bý og vinn í bænum. Þegar ég losnaði undan samningi hafði ég samband við Valsmenn og þeir höfðu áhuga á að fá mig," sagði Guðmundur í samtali við fréttastofu, en hann samdi við Val út næstu leiktíð.

Valsmenn hafa fengið mikið af leikmönnum til liðs við sig fyrir leiktíðina en Guðmundur óttast ekki samkeppnina. "Það er gott að hafa mikla samkeppni um stöður í liðinu og þannig bætir maður sig sem leikmaður. Ég er samt ekkert að fara til Vals til að sitja á bekknum. Maður er í þessu til að fá að spila. Það er samt auðvitað þjálfarinn sem ræður því," sagði Guðmundur.

Hann segist skilja sáttur við Keflavík eftir að hafa spilað þar síðan 2005. "Þetta var fínn tími og ég skil við Keflvíkinga í góðu. Það var mjög svekkjandi að vera meiddur og missa af seinni hlutanum á tímabilinu, því við ætluðum að sjálfssögðu að verða meistarar," sagði Guðmundur og bætti við að hann hlakkaði mikið til að spila með Valsliðinu. "Umgjörðin og metnaðurinn hjá félaginu er frábær."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×