Lífið

Beneath sú fyrsta á Wacken

Hljómsveitin Beneath spilar á Wacken-hátíðinni fyrst íslenskra sveita.
Hljómsveitin Beneath spilar á Wacken-hátíðinni fyrst íslenskra sveita.

Íslenska þungarokksveitin Beneath spilar á Wacken-tónlistarhátíðinni í lok mánaðarins.

„Við lítum á þetta sem frábært tækifæri. Við fáum að spila fyrir eitthvað af fólki og lítum á þetta sem auglýsingu og reynslu,“ segir Gísli Sigmundsson, söngvari dauða­rokksveitarinnar Beneath. Hún verður fyrsta íslenska hljómsveitin til að spila á Wacken-hátíðinni í Þýskalandi þegar hún stígur þar á svið 31. júlí.

Wacken er ein virtasta þungarokkshátíð heims. Hún heldur upp á tuttugu ára afmælið sitt í ár og á meðal flytjenda verða stór nöfn á borð við Anthrax, Motörhead, Testament og Bullet for My Valentine.

Beneath vann hljómsveitakeppnina Wacken Metal Battle á Íslandi í apríl og öðlaðist þá rétt til að spila í lokakeppninni sem verður haldin meðfram öðrum tónlistaratriðum á Wacken. Þar taka 22 hljómsveitir þátt frá jafnmörgum löndum. Sigurvegarinn fær plötusamning í verðlaun og er því til mikils að vinna. „Ég held að við séum ekkert verra band en hvað annað. Hvað varðar gæðin held ég að við séum á pari,“ segir Gísli um möguleika Beneath á sigri. „Það er spurning hvort við séum of harðir fyrir þetta því flest böndin eru aðeins aðgengilegri en við.“

Þótt Beneath verði fyrsta íslenska hljómsveitin til að spila á Wacken hefur Íslendingur áður stigið þar á svið, enginn annar en rokkarinn Eiríkur Hauksson. Gísli hlakkar til að feta í fótspor hans. „Við fáum ágætis tíma þarna. Við verðum seinni partinn á föstudeginum, næstsíðasta metal battle-bandið á svið. Þetta verður bara gaman.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.