Íslenski boltinn

Úr atvinnumennsku í tennis í Breiðablik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arnar Sigurðsson með tennisspaðann.
Arnar Sigurðsson með tennisspaðann.

Arnar Sigurðsson, margfaldur Íslandsmeistari í tennis og fyrrum atvinnumaður í íþróttinni, er byrjaður að æfa með knattspyrnuliði Breiðabliks og lék æfingaleik með liðinu gegn Íslandsmeisturum FH í gær.

„Það má segja að það sé gamall draumur að rætast. Ég hef alltaf verið í tennis og hætti því snemma í fótboltanum. Ég spyr mig stundum hvað hefði verið hefði ég haldið áfram í honum,“ sagði Arnar í samtali við fréttastofu.

„Í sumar kom í ljós að ég var það illa meiddur á öxl að ég ákvað að hætta atvinnumennskunni í tennis. Þar með ákvað ég að snúa mér að öðru og skellti mér í boltann.“

„Ég var að spila með Augnablik í 3. deildinni í sumar og fór svo að hugsa með mér í haust að það væri gaman að prófa sig hjá liði sem leikur í betri deild,“ sagði Arnar. „Ég hef alltaf verið Bliki og og fékk að mæta á nokkrar æfingar. En það var svo sem aldrei planið að komast inn í Landsbankadeildina en ég sé til hvernig þetta fer. Tek eina æfingu fyrir í einu.“

Arnar spilar á vinstri kantinum. „Ég fæ nóg að hlaupa,“ sagði hann í léttum dúr. Hann segir ekki skemma fyrir að hann sé í góðu líkamlegu formi. „Það hjálpar vissulega mikið til. Ég er auðvitað ekki í miklu fótboltaformi en það er fljótt að koma.“

„Ég er líka að læra heilmikið af þessu. Ég kem úr einstaklingsíþrótt og því mikil viðbrigði að taka þátt í hópíþrótt núna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×