Erlent

Um 13.000 uppsagnir fram undan

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Gert er ráð fyrir því að allt að 13.000 manns verði sagt upp störfum í breska fjármálageiranum á þriðja ársfjórðungnum.

Það voru 17.000 manns sem misstu störf sín hjá breskum fjármálafyrirtækjum á fyrsta fjórðungi ársins, 15.000 á öðrum fjórðungi og nú er því spáð að 13.000 fái að fjúka á þeim fjórðungi sem nú er að hefjast. Þetta eru geysiháar tölur, jafnvel þótt um tugmilljónaþjóð sé að ræða, en samt sem áður dregur hægt og bítandi úr uppsögnum og hlutirnir virðast vera að þokast upp á við.

Ian McCafferty, hagfræðingur hjá samtökum iðnaðarins í Bretlandi, segir að vissulega sé óvissan mikil en þó sé örlítið skárra veður í kortunum núna en oft áður. Útlitið sé auðvitað langt frá því að vera glæsilegt og banka- og fjármálakerfið enn mjög viðkvæmt fyrir nýjum áföllum en þó sé nokkur ástæða til bjartsýni. Baráttunni er þó langt í frá lokið og afkomutölur bankanna sýna að hagnaður þeirra hefur ekki verið minni síðan í mars 1991.

Hagfræðingar spá því þó að þetta breytist á þeim ársfjórðungi sem nú fer í hönd og landið taki smátt og smátt að rísa. Samkvæmt nýrri könnun er bjartsýnin mest meðal breskra tryggingafyrirtækja en sú könnun náði til 73 fjármálafyrirtækja og var framkvæmd af samtökum iðnaðarins í Bretlandi. Innan samtakanna eru 240.000 fyrirtæki sem eru vinnuveitendur þriðjungs þeirra Breta sem starfa í einkageiranum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×