Innlent

Skátarnir áberandi í hátíðarhöldum dagsins

MYND/GVA
Skátar, skrúðgöngur, lúðrablástur, vöfflur og rjómi. Sumardagurinn fyrsti er runninn upp og fraus saman við síðasta vetrardag, mörgum hjátrúuðum landsmönnum áreiðanlega til mikillar gleði.

Já, sumarið komið, eða svo segir dagatalið, með sinni árlegu skátamessu í Hallgrímskirkju þar sem Hjörleifur Valsson lék á Stradivaríusinn inn sumarið. Ágætlega var mætt í skrúðgöngu skáta frá Arnarhóli í morgun þar sem prýðilegt íslenskt sumardagsveður lék við göngufólk, stillt en grár dumbungur. Allir helstu mektarmenn þjóðarinnar komu síðan saman í Hallgrímskirkju og hlýddu á skátamessuna.

Þessum fyrsta degi sumars verður víða fagnað með skrúðgöngum og öðrum hátíðahöldum á landinu. Fjölskylduhátíðir verða í helstu hverfum Reykjavíkur. Í Vesturbænum verður haldið í skrúðgöngu frá Melaskóla klukkan eitt og fjölskylduhátíð hefst við Frostaskjól klukkan hálftvö. Í Grafarvogi fer skrúðganga frá Spönginni klukkan korter í eitt og hátíðahöldin hefjast síðan við Rimaskóla klukkan eitt. Allar upplýsingar um sumarhátíðir í Reykjavík eru á vefsíðunni ítr.is. Á Akureyri verður fjölskyldustemmning við Minjasafnið frá tvö til fjögur með útileikjum, lummuáti og kakódrykkju. Að vanda verða skátarnir áberandi í hátíðarhöldum dagsins og flest skátafélög landsins taka þátt. Upplýsingar eru á skátar.is.

Og svo hefur það efalaust vakið mörgum gleði að síðasti vetrardagur og sumardagurinn fyrsti frusu saman, ekki síst öllum þeim fjölda fólks sem treystir sér ekki í utanlandsferðir þetta árið. Það mun samkvæmt þjóðtrúnni eiga von á heldur betri tíð í sumar en ef ekkert hefði frostið verið í nótt. Gleðilegt sumar!




Tengdar fréttir

Sigmundur Davíð á fjölskylduhátíð framsóknarmanna

Sumarhátíð Framsóknarflokksins í Reykjavík verður haldin á Ingólfstorgi í dag klukkan 14. Boðið verður upp á grillaðar pylsur, græna frostpinna, hoppikastala, dýrablöðrur og andlitsmálningu.

Fyrsta degi sumars víða fagnað

Sumardagurinn fyrsti rann upp bjartur og fagur á höfuðborgarsvæðinu og víða um land verður þessum fyrsta degi sumars fagnað með skrúðgöngum og öðrum hátíðahöldum. Fjölskylduhátíðir verða í helstu hverfum Reykjavíkur í dag.

Ræningjarnir þrír á hátíð sjálfstæðismanna

Sjálfstæðisflokkurinn efnir til fjölskylduhátíðar í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Reykjavík í dag, sumardaginn fyrsta. Ræningjarnir í Kardimommubænum, þeir Kasper, Jesper og Jónatan, verða meðal skemmtiatriða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×